15. janúar 2011 |
Eitt skip skoðað á kjálkanum 2010 - á Reykhólum
Fremur sérstakt má telja, að af öllum þeim erlendu skipum sem íslenska hafnarríkiseftirlitið skoðaði á nýliðnu ári var aðeins eitt í vestfirskri höfn - í Reykhólahöfn. Eins og á undanförnum árum hefur farið fram eftirlit með erlendum skipum í formi hafnarríkisskoðana í samræmi við samþykkt Parísarsamkomulagsins og tilskipanir Evrópusambandsins sem varða eftirlit með erlendum skipum og mengunarvörnum.
Samkvæmt tilkynningum frá Schengen og SafeSeaNet voru erlendar skipakomur til Íslands 351 á árinu 2010 og er það sex skipum færra en árið áður. Með þessu er átt við að skip eru aðeins talin einu sinni þótt þau komi oftar til landsins á tímabilinu. Skoðuð voru 106 skip sem er 30,2% af komum erlendra skipa til Íslands.
Þetta kemur fram á vef Siglingastofnunar. Ekki kemur fram hvaða skip þetta var í Reykhólahöfn.