Eitt skot í Fast 8 við Þörungaverksmiðjuna
Eins og talsvert hefur verið fjallað um í fréttum standa yfir tökur hérlendis á atriðum í Fast 8 í seríunni The Fast and the Furious. Að mestu fara þær fram á Mývatni en nokkur skot eru tekin annars staðar. Þannig reyndist ekki hægt að sprengja upp ís á Mývatni vegna þess hve grunnt það er og útkoman hefði orðið drullugos og þess vegna var það gert á Langavatni í Reykjahverfi.
Um hádegið í dag kemur tökulið á Reykhóla út af einu myndskeiði sem verður væntanlega ekki nema ein til tvær mínútur í sýningu. Um er að ræða drónaflug við mjölturnana hjá Þörungaverksmiðjunni jafnframt því sem ofurbíll hringspólar (driftar) á planinu við turnana.
Þörf er á sex til átta aukaleikurum til að vera þar viðstaddir, körlum á aldrinum 30-50 ára, í snyrtilegum útivistarklæðnaði og með vettlinga. Þeir sem vilja taka þátt í þessu eru beðnir að koma í Hólabúð í hádeginu og hitta tökuliðið. Eini leikarinn sem kemur á Reykhóla af þessu tilefni er Tyrese Gibson. Ofurbíllinn (Lamborghini Egoista) ásamt íslenskum bílstjóra kemur síðdegis á flutningabíl.
Tökurnar sjálfar eiga að fara fram í kvöld þegar dimmt er orðið.
– Unnið upp úr tilkynningu frá frá Pure North.
Bjarni Ólafsson, fstudagur 01 aprl kl: 09:12
Maður hfur nú skroppið vestur af minna tilefni.
Bjarni