Tenglar

24. mars 2016 |

Ekki lengur þörf á innflutningi á laxi

Af heimasíðu Fjarðalax.
Af heimasíðu Fjarðalax.

Bæði framleiðsla og neysla á eldislaxi hefur stóraukist hér á landi síðustu ár. Bylgjan hófst árið 2012 þegar Fjarðalax hóf að slátra fyrstu kynslóð úr sjókvíum sínum á Vestfjörðum. Fjarðalax [firðirnir í heitinu eru Patreksfjörður, Tálknafjörður og Arnarfjörður] er enn langstærsti leikandinn á markaðnum en önnur minni fyrirtæki hafa framleitt lax og nú eru stórir framleiðendur að bætast við, sérstaklega munar um Arnarlax sem líka er á Vestfjörðum. Þó að meginhluti framleiðslunnar sé fluttur úr landi hentar fyrirtækjunum ágætlega að sinna innlenda markaðnum með. Útlit er fyrir að ekki þurfi að flytja inn færeyskan eða norskan lax í sumar.

 

Þetta kemur fram í fréttaskýringu Helga Bjarnasonar blaðamanns í Morgunblaðinu í dag. Þar segir einnig meðal annars:

 

Í upphafi var hugmyndin hjá Fjarðalaxi að flytja alla framleiðsluna út til Bandaríkjanna, en hún er vottuð fyrir sælkerakeðjuna Whole Foods Market. Því var hluti þess ferska lax sem hér var seldur í verslunum og á veitingastöðum norskur eða færeyskur.

 

„Það kom fljótt í ljós að íslenski markaðurinn vildi kaupa þann lax sem við erum að framleiða. Hentugra er að kaupa hann hjá okkur en að flytja inn. Það kom líka í ljós að það er hentugt fyrir okkur að selja hluta framleiðslunnar í körum og geta dreift álaginu á milli innlenda markaðarins og útflutnings. Verðið hér er líka ágætt,“ segir Ómar Grétarsson, sölu- og markaðsstjóri Fjarðalax.

 

Neysla á laxaafurðum hefur aukist hér, eins og annars staðar, og seljendur á laxfiskum verða mjög varir við aukinn fjölda ferðamanna. Fyrst ber að nefna að þær eru taldar hollur matur. Íslensku afurðirnar eru sérlega heilnæmar vegna þess að ekki eru notuð nein lyf við framleiðsluna og afurðirnar og fóðrið er vottað. Þegar fólki líkar varan aukast líkurnar á að það kaupi hana aftur næst þegar farið er út í búð.

 

Þrátt fyrir stóraukna framleiðslu hefur fram til þessa verið fluttur inn færeyskur og norskur eldislax yfir hásumarið þegar neyslan er einna mest vegna grilltímabilsins og ferðamennskunnar. Stóru fyrirtækin hafa gert hlé á slátrun í nokkrar vikur yfir sumarið, hafa ekki haft fisk til að slátra allar vikur ársins. Því hafa verið flutt inn 200-500 tonn af laxi. Staðan er að breytast með aukinni framleiðslu og fleiri framleiðendum og telja framleiðendur og sölufyrirtæki að nóg verði af íslenskum ferskum laxi í sumar.

 

Innflutti laxinn er ekki eins ferskur og sá íslenski þegar hann kemur á markaðinn en seljendur sem rætt er við láta þó vel af gæðum hans.

_____________

 

Ástæðan fyrir þessari birtingu á vef Reykhólahrepps er einkum sú, að laxinn frá þeim fyrirtækjum sem hér um ræðir fer um endilangan Reykhólahrepp á leið sinni suður og mestur hluti hans þaðan áfram til útlanda. Heildarframleiðsla á laxfiski hérlendis er núna um tíu þúsund tonn yfir árið.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31