7. apríl 2009 |
Ekki opnað milli svæða á Vestfjörðum fyrir páska
Vegagerðin hefur hætt við mokstur á Hrafnseyrarheiði að sinni vegna snjóflóðahættu. Geir Sigurðsson, rekstrarstjóri hjá Vegagerðinni, segir að reynt hafi verið að sprengja niður snjóhengjur en ekki tekist. Hann á ekki von á því að mokað verði fyrir páska. Frá þessu er greint á ruv.is. Samkvæmt reglum um snjómokstur átti vormokstur að hefjast 20. mars en ekki hefur verið unnt að ráðast í hann vegna erfiðrar tíðar og snjóflóðahættu. Einnig er Dynjandisheiði ennþá lokuð.
Að þessu sinni er því lokað milli norðursvæðis og suðursvæðis Vestfjarðakjálkans enn stærri hluta ársins en yfirleitt hefur verið á seinni árum.