Tenglar

1. júní 2016 |

Eldað og gist í kirkjunni en sumt þó kannski öllu verra

Séð yfir hluta Reykhólaþorps, kirkjan vinstra megin. Ljósm. ÁG.
Séð yfir hluta Reykhólaþorps, kirkjan vinstra megin. Ljósm. ÁG.

Ferðafólki sem hafði gert sig heimakomið í kirkjunni á Reykhólum núna fyrir helgina, eldað þar og gist, var vísað út þegar þetta kom í ljós morguninn eftir. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ferðamenn gista í kirkjunni til að koma sér undan því að borga fyrir gistingu á svæðinu. Framvegis verður kirkjan höfð læst.

 

Frá þessu er greint á fréttavefnum visir.is. Þar segir einnig meðal annars:

 

„Þetta var par frá Kanada og þau höfðu eldað þarna inni. Ég veit ekki hvort þau voru með prímus eða eitthvað tengt við rafmagn,“ segir María Maack, íbúi á svæðinu. „Kirkjan er öll klædd að innan með timbri. Manni óar við agaleysinu í þessu fólki.“

 

María segir að parinu hafi þótt það alveg sjálfsagt að gista í kirkjunni en hafi haldið sína leið eftir að því var gert það ljóst að slíkt væri ekki í lagi. Bæjarbúar harma það að læsa þurfi kirkjunni enda sé hún miðpunktur félagsstarfs á svæðinu.

 

„Það er fáranlegt að það þurfi að banna allt sem er alveg sjálfsagt að sé ekki gert,“ segir María.

 

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem bæjarbúar þurfa að hafa afskipti af næturgestum í kirkjunni, en fyrr á árinu kom prestur kirkjunnar, Hildur Björk Hörpudóttir, að erlendum ferðamönnum sofandi á kirkjubekkjunum, búnir að þvo af sér og elda sér kvöldmat.

 

María segir að alla jafna fái ferðamenn góðar móttökur á Reykhólum og þangað komi þó nokkur fjöldi ferðamanna. Aðstaða fyrir þá sé góð, þar eru tvö tjaldsvæði og nýbúið að opna gistiheimili. Það séu þó svartir sauðir inni á milli sem skyggi á upplifun heimamanna á ferðamönnum. Oftar en ekki séu það þeir sem ferðist á svoköllum „campers“ eða sendiferðabílum sem reyni ítrekað að komast hjá því að greiða fyrir þjónustu.

 

Nefnir María dæmi því til sönnunar.

 

„Ferðamenn velja mjög mikið að leggja bílunum sínum við skógrækt sem er hér fyrir utan byggðina. Umgengnin í skóginum af hálfu ferðamanna hefur verið hræðileg. Það er mannaskítur og klósettpappír út um allt. Það er ekki gaman að fara þangað í berjamó.“

 

María segir einnig að algengt hafi verið á síðasta ári að ferðamenn í slíkum bílum hafi lagt við höfnina og truflað þar starfsemi. Þá hafi tjaldverðir á tjaldsvæðunum ítrekað haft afskipti af ferðamönnum sem nýti sér klósett og aðra aðstöðu en neiti svo að greiða fyrir, með þeim rökum, að þeir gisti ekki á tjaldsvæðunum.

 

Í vetur hafi það einnig komið fyrir að ferðamenn hafi bankað upp á og spurt hvar hægt væri að gista. Var þeim bent á bændagistingu í grennd við Reykhóla þar sem þeir gistu eina nótt. Síðar kom í ljós að þau höfðu gist á klósetti á tjaldsvæðinu í tvær nætur. Skildu þau eftir sig umslag sem í var þúsundkall og bréf sem á stóð „thx for the help“.

 

Meira hér á visir.is

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31