9. mars 2010 |
Elínborg á Mávavatni sigraði með glæsibrag
Stóra upplestrarkeppnin sem haldin var í íþróttahúsi Reykhólaskóla í gær var hin besta skemmtun. Alls voru níu nemendur frá fjórum skólum sem þátt tóku, frá skólunum á Borðeyri, Drangsnesi, Hólmavík og Reykhólum. Einn keppandi hafði skráð sig frá Finnbogastaðaskóla í Árneshreppi en komst ekki vegna ófærðar. Í fyrstu umferð lásu keppendur úr skáldsögunni Undraflugvélinni eftir Ármann Kr. Einarsson. Í annarri umferð voru lesin ljóð eftir Þorstein frá Hamri. Í þeirri þriðju völdu keppendur sjálfir ljóð til upplestrar.
Í þremur efstu sætum urðu:
1. Elínborg Egilsdóttir, Reykhólaskóla.
2. Ármann Ingi Jóhannsson, Grunnskólanum Borðeyri.
3. Margrét Vera Mánadóttir, Grunnskólanum Hólmavík.
Sérstaka viðurkenningu hlaut Arna Sól Mánadóttir, Grunnskólanum Borðeyri, fyrir góðan upplestur.
Sparisjóður Strandamanna gaf keppendum sem lentu í þremur efstu sætum peningaverðlaun: 20 þúsund krónur fyrir fyrsta sætið, 15 þúsund fyrir annað sætið og 10 þúsund fyrir þriðja sætið.
Nemendur í Tónlistarskólanum á Hólmavík fluttu stutt tónlistaratriði og nemendaráð Reykhólaskóla annaðist veitingar.
Guðrún Guðmundsdóttir, mivikudagur 10 mars kl: 10:33
Til hamingjum með árangurinn Elínborg : )