Ellefu flugvélar í hópferð á Reykhóla
„Það fannst öllum sérlega skemmtilegt að koma á Reykhóla, enda veðurblíðan einstök og kyrrðin og nálægðin við náttúruna mjög róandi og sjarmerandi. Ég sjálfur var að koma þarna í fyrsta skipti og á örugglega eftir að koma oftar,“ segir Halldór Kr. Jónsson, einn fljúgandi gesta á Reykhólum á laugardaginn. Þá kom hópur ellefu flugvéla með um tuttugu og fimm manns innanborðs í heimsókn, mannskapurinn nærði sig í Hólabúð og fór í gönguferð um þorpið og margir brugðu sér í Grettislaug.
Hér var á ferðinni hópur fólks á vegum AOPA, sem er félag flugmanna og flugvélaeigenda á Íslandi. Haraldur Diego var fararstjórinn og fékk hann far með áðurnefndum Halldóri á TF-PAA (Piper Clipper). Þeir tóku myndirnar sem hér fylgja.
Mannskapurinn var bæði úr Reykjavík og Mosfellsbæ. Lagt var af stað úr Reykjavík með hópræsingu kl. 10.20 eftir að AOPA hafði boðið upp á morgunmat.
„Leiðin lá gagngert til Reykhóla, en flogið var yfir Mýrarnar, Stykkishólm og eyjarnar úti fyrir mynni Hvammsfjarðar og svo beint á Reykhóla. Á heimleiðinni var flogið yfir í Þorskafjörðinn, út hann og yfir Skáleyjar, Svefneyjar og Flatey, en síðan var stefnan tekin beint í Mosfellsbæ þar sem lentum um klukkan 16 og kepptum í lendingarkeppni FKM,“ segir Halldór Kr. Jónsson.
Eins og oft hefur komið fram eru einkaflugvélar tíðir gestir á Reykhólum á sumrin. Stundum eru nokkrar í samfloti en sjaldan eins margar eins og í þetta skipti, þó að það gerist kannski einu sinni eða tvisvar á ári. Nokkrum sinnum hafa fisvélar komið í hópum og rennt upp að tankinum við búðina að taka bensín.
Nokkrar eldri fréttir varðandi flugferðir og Reykhóla:
Farfuglar á Reykhólum fá sér í gogginn (12. apríl 2016).
Sama flugvél á sama stað 1955 og 2008 (21. ágúst 2015).
Flug-sund á björtum sunnudegi á Reykhólum (14. apríl 2014).
Komu á flugvél gagngert að sækja jólahangikjötið (8. desember 2013).
Piper Cub við bensíndæluna á Reykhólum (22. júní 2013).
Stórflott að koma hér – alveg dúndurgott (7. júlí 2011).
Flugvélar í biðröð eftir bensíni á Reykhólum (7. júlí 2011).
Var alla tíð með sparibaukinn að safna fyrir vélinni (1. ágúst 2008).
Kíkir á Reykhólavefinn í New York á morgun (17. júlí 2008).
Fisvélaferðin um Vestfirði var engu lík (25. júlí 2007).
Á leið í hádegismat á Ísafirði (24. júlí 2007).