Emil Hallfreðsson eldri var bóndi í Geiradal
Hér á Reykhólavefnum var á sunnudag fjallað um hinn unga Jón Daða Böðvarsson, ættaðan frá Miðhúsum í Reykhólasveit, sem kom eins og þruma inn í landsliðið í fótbolta. Þá var þess jafnframt getið, að ekki væri ósennilegt að hér yrði innan tíðar minnst á annan landsliðsmann ættaðan úr héraðinu, sem auk þess væri nýbúinn að taka utan um páfann. Þetta er Emil Hallfreðsson sem spilar þessi árin með Verona í efstu deild á Ítalíu, einn af allra bestu mönnum liðsins.
Emil varð þrítugur í sumar. Hann er miðvallarmaður og hefur verið lengi í atvinnumennsku erlendis. Með íslenska A-landsliðinu hefur hann spilað 43 leiki og með yngri landsliðum spilaði hann 24 leiki. Afi hans og alnafni var Emil Hallfreðsson (1916-2000), sem fæddur var og uppalinn á Bakka í Geiradal. Árið 1962 stofnaði hann nýbýlið Stekkjarholt út úr Bakka og bjó þar uns hann fluttist til Reykjavíkur árið 1979.
Foreldrar Emils eldra voru Kristrún Jónsdóttir frá Steinadal og Hallfreður Eyjólfsson frá Gilsfjarðarmúla. Systkini Hallfreðs í héraðinu voru fjölmörg, m.a. Bjarna-Sigrún í Gilsfjarðarmúla, Stefán á Kleifum í Gilsfirði, Hallfríður á Laugabóli (skáldkonan Halla á Laugabóli) og Steinólfur Geirdal.
Kona Emils Hallfreðssonar var Guðbjörg Karlsdóttir (1929-2005) frá Valshamri í Geiradal. Faðir hennar, Karl Guðmundsson, var bróðir Guðrúnar á Eyri (Sveinungseyri) í Kollafirði austanverðum í Gufudalssveit vestanverðri, þar sem réttin nýmálaða er. Guðrún var amma Jóns Gnarrs, Ara grjóthleðslumeistara Jóhannessonar frá Múla sem nýlega lauk við garðhleðslu við kirkjugarðinn á Reykhólum og margra fleiri.
Varðandi Jón Daða Böðvarsson má bæta við það sem hér var ritað fyrir skömmu, að hann á einnig fjölda ættingja hér um slóðir. Ingibjörg Árnadóttir langamma hans var systir Ragnheiðar í Tröllatungu handan heiðar, ömmu Daníels á Ingunnarstöðum, Þórarins föður Lilju á Grund og Brandísar ömmu Svanhildar Sigurðardóttur á Reykhólum.
Í byrjun mánaðarins komst Emil yngri í heimspressuna af næsta sérstakri ástæðu. Þá voru fengnir margir þekktir fótboltamenn víða úr heiminum í heimsókn í Vatíkanið og tóku þeir síðan þátt í leik á Ólympíuleikvanginum í Róm til stuðnings friði í heiminum. Auk Emils Hallfreðssonar skulu hér einungis nefndir Lionel Messi og Ronaldino, enda vita áhugamenn um fótbolta flest um þetta. Leikurinn nefndist „Match for Peace“ eða Friðarleikurinn. Frans I. páfi tók á móti knattspyrnumönnunum í Vatíkaninu og var meðfylgjandi mynd tekin af honum og Emil við það tækifæri.