Tenglar

25. nóvember 2012 |

Endurminningar frá uppvexti í Breiðafjarðareyjum

Komin er út hjá bókaforlaginu Uppheimum bókin Urðarmáni eftir Ólaf Ásgeir Steinþórsson. Þar rifjar höfundur upp breiðfirska æsku sína og ungdómsár um og upp úr miðri síðustu öld. Hann segir: „Það voru forréttindi að hafa hlotið og notið þess að alast upp í Breiðafjarðareyjum. Enginn sem það hefur reynt gleymir nokkru sinni fjörulyktinni, fuglakliðnum, kvöldkyrrðinni og hinni algjöru þögn þegar haf og himinn runnu saman í tímalausa sumarnótt.“

 

Í þessari bráðskemmtilegu endurminningabók bregður Ólafur upp einstökum myndum af daglegu lífi og störfum fólks í Bjarneyjum á Breiðafirði síðustu árin sem eyjarnar voru í byggð. Frá Bjarneyjum er horfið vestur til Flateyjar og sagt frá töfraveröld æskunnar í leik og starfi. Að lokum er mannlífi og uppgangi í stórbænum Stykkishólmi lýst, þar sem fleiri lásu nótur en þeir voru sem kunnu faðirvorið og ungir menn sem áttu kærustur leiddu þær undir hendi um holóttar göturnar eins og þær væru úr postulíni frá Bing & Gröndal.

 

Ólafur Ásgeir Steinþórsson fæddist árið 1938. Þá voru foreldrar hans ábúendur í Bjarneyjum og ólst hann þar upp til sjö ára aldurs. Búskaparhættirnir eru honum í fersku minni. Frá Bjarneyjum flutti fjölskyldan til Flateyjar 1945 og voru árin þar eitt allsherjar ævintýri fyrir börn og unglinga. Árið 1953 var brugðið búi í Flatey og haldið til Stykkishólms.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31