Endurnærandi þaraböð og súpa með ívafi úr sjónum
SjávarSmiðjan sem opnuð var á Reykhólum í fyrra hefur fleira að bjóða en þaraböð - þar er líka bæði kaffistofa og verslun með sjávartengdar heilsuvörur. Samt eru böðin það sem allt snýst um þarna undir gamla bæjarhólnum á Reykhólum með útsýni suður yfir hinn þörungaríka Breiðafjörð. Og SjávarSmiðjan tekur virkan þátt í Reykhóladögunum sem nú fara í hönd - öllum er boðið að koma þar í súpu endurgjaldslaust milli kl. 11.30 og 13 bæði á föstudag og laugardag. Ekki verður gefið upp fyrr en þar að kemur hvernig súpa það verður, nema hvað hún verður ljúffeng og væntanlega með ívafi úr sjónum.
Íslendingar eru í meirihluta þeirra sem fara í þarabað þó að erlendir ferðamenn komi líka. „Já, fólki finnst þetta nýstárlegt og spennandi og gestirnir eru bæði endurnærðir og ánægðir á eftir,“ segir Svanhildur Sigurðardóttir hjá SjávarSmiðjunni. Hún hefði reyndar viljað sjá þar heldur meira af fólki sem er á öllum ættarmótunum á svæðinu yfir sumarið.
Þarna í gamla verkstæðinu sem búið er að gera upp í þessum tilgangi er kaffistofan sem fyrr var nefnd. Og svo er í einu horninu hægt að kaupa ýmsar sjávartengdar heilsuvörur sem eiga rætur að rekja í Breiðafjörðinn og önnur hafsvæði, framleiddar hér vestra og annars staðar.
Auðvelt er að finna SjávarSmiðjuna: Þegar ekið er niður að þorpinu á Reykhólum er beygt til hægri rétt áður en komið er að kirkjunni og síðan er SjávarSmiðjan mjög fljótlega vinstra megin. Þetta er allt merkt í bak og fyrir.
SjávarSmiðjan er opin fram til 1. september frá kl. 15.30 til 20 og auk þess eftir samkomulagi.
Flettið myndunum og smellið á þær til að stækka.
► Elfar Logi og RenRen í þaraböðunum á Reykhólum