Tenglar

13. ágúst 2008 |

Engan veginn „elsti nothæfi Breiðfirðingur landsins“

Breiðfirski báturinn sem hér um ræðir. Ljósm. Skessuhorn.
Breiðfirski báturinn sem hér um ræðir. Ljósm. Skessuhorn.

Á fréttavef Skessuhorns í dag segir að „elsti nothæfi Breiðfirðingur landsins" hafi verið keyptur til varðveislu í Sjávarsafninu í Ólafsvík. Í fréttinni segir jafnframt að bátur þessi sé frá árinu 1953. Aðalsteinn Valdimarsson á Reykhólum, skipasmiður úr Hvallátrum á Breiðafirði, sem er gjörkunnugur breiðfirskum bátum, fullyrðir að hér sé ekki rétt með farið. Hann nefnir strax nokkra breiðfirska báta sem eru eldri og eru jafnframt prýðilega sjófærir og enn í notkun.

„Fyrst má nefna bát sem smíðaður var í Hvallátrum árið 1935. Hann er núna í notkun á Patreksfirði, ber heitið Björk og er í eigu Eggerts Björnssonar. Báturinn Ólafur sem smíðaður var í Hvallátrum árið 1948 er líka í fínu lagi. Hann er núna þessar vikurnar í höfninni hér úti á Stað á Reykjanesi. Eigandi hans er Hafliði Aðalsteinsson skipasmiður úr Breiðafjarðareyjum", segir Aðalsteinn.

 

„Í þriðja lagi get ég nefnt bátinn Búlka, sem núna er í eigu Hafsteins Guðmundssonar í Flatey. Hann var smíðaður af Gesti Gíslasyni fyrir Steinþór Einarsson einhvern tímann fyrir 1950. Þessir bátar eru allir í notkun enn í dag meira og minna. Og vissulega eru til fleiri sjófærir breiðfirskir bátar frá því fyrir miðja síðustu öld en þessir þrír sem fyrst komu í hugann. Þar á meðal einn sem er miklu eldri. Það er Svanur í Skáleyjum, sem smíðaður var fyrir liðlega hundrað árum og er enn í dag notaður til fjárflutninga."

 

Aðalsteinn ber einnig brigður á aldur bátsins sem greint er frá á vef Skessuhorns og telur að hér hafi menn farið bátavillt. Hann segir að upphaflega, vel hugsanlega árið 1953, hafi Kristján Gíslason frá Skógarnesi á Snæfellsnesi smíðað lítinn bát fyrir Gunnlaug son sinn. Líklega um áratug síðar hafi Kristján smíðað annan og stærri bát og sé það sá bátur sem vefur Skessuhorns greinir frá. Síðar hafi hann skipt við soninn á bátum og farið með litla bátinn að Skógarnesi.

 

Myndin af bátnum umrædda sem hér fylgir er af vef Skessuhorns.

 

Fréttin á vef Skessuhorns

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30