Engin vefmyndavél við arnarhreiður í ár
Arnarsetur Íslands í Kaupfélagshúsinu gamla í Króksfjarðarnesi í Reykhólahreppi hefur komið sér upp heimasíðu. Hvatinn að stofnun setursins var að miklu leyti vefmyndavél sem komið var upp í ónefndri breiðfirskri eyju vorið 2008, þar sem hægt var að fylgjast með arnarhreiðri, athöfnum foreldranna og uppeldi ungans. Með þessu var jafnframt fylgst hér á vef Reykhólahrepps.
Sumarið eftir misfórst varpið hjá arnarparinu. Sumarið 2010 lukkaðist varpið en þá hrundi vefkerfið að baki myndavélinni. Í hitteðfyrra varð ekkert úr varpi hjá parinu og í fyrra misfórst það.
Núna í vor var undirbúin uppsetning vefmyndavélar við annað hreiður en hætt var við þegar parið þar yfirgaf hreiðrið snemma í júlí. Á fyrri staðnum misfórst varpið eina ferðina enn og ljóst að þetta sumarið er engin vefmyndavél á vegum Arnarseturs Íslands með beinar útsendingar frá breiðfirsku arnarhreiðri.
Borði með tengli á vef Arnarseturs Íslands er kominn í tengladálkinn hér vinstra megin á vefnum.
► 27.07.2008 Vefmyndavél Arnarsetursins komin í gang
► 20.05.2008 Vefmyndavél Arnarsetursins í gagnið á næstu vikum
► Heimasíða Arnarseturs Íslands