Enginn á atvinnuleysisskrá í Reykhólahreppi
Enginn var á atvinnuleysisskrá í Reykhólahreppi um síðustu mánaðamót, samkvæmt skýrslu Vinnumálastofnunar um stöðu á vinnumarkaði. Svo var einnig um aðeins fjögur önnur sveitarfélög en alls eru 78 sveitarfélög í landinu. Eitt þeirra fjögurra er einnig á Vestfjörðum, Árneshreppur, en einhverjir voru á skrá í hinum sveitarfélögunum átta á Vestfjörðum, samtals 84, þar af 42 í Ísafjarðarbæ, 15 í Vesturbyggð og 11 í Súðavíkurhreppi.
Ef allir landshlutar eru skoðaðir voru langfæstir á atvinnuleysisskrá á Vestfjörðum að meðaltali í febrúar sem hlutfall af mannafla eða 1,8%. Næst kom Norðurland vestra með 3,3% en hlutfallið á landinu í heild var 8,2%. Á höfuðborgarsvæðinu var hlutfallið 8,5% en langhæst var það á Suðurnesjum eða 13,5%. Í lok mánaðarins voru samtals 15.485 skráðir atvinnulausir á landinu öllu og þar af mun fleiri karlar en konur.
Skýrslu Vinnumálastofnunar í heild má lesa hér (pdf-skjal).