Enginn vilji til að jafna aðstöðumun á landsbyggðinni
Hár flutningskostnaður bæði fyrir aðföng og afurðir á markað, stopular samgöngur og léleg samningsstaða við birgja vegna smæðar heimamarkaðarins eru þau vandamál sem starfandi verslunarfyrirtæki standa helst frammi fyrir sem áskoranir. Í þeim erfiðleikum sem verslunareigendur eiga sameiginlegt á landsbyggðinni kristallast vandi lítilla og meðalstórra fyrirtækja á landsbyggðinni, bæði í verslun, þjónustu og litlum iðnaði, sem og stærri fyrirtækja, segir Guðrún Eggertsdóttir, verkefnastjóri Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða, í grein á vef Byggðastofnunar. Einnig segir hún:
Enginn velkist í vafa um að fyrirtækjum og fólki heldur áfram að fækka úti á landi ef ekkert er að gert. Allt tal um samgöngubætur sem myndu lækka flutningskostnað er stimplað sem kjördæmapot. Samgöngubætur eru reiknaðar út frá arðsemismati, fjölda íbúa og hagkvæmni út frá núverandi umferð. Talað er um kostnað á höfðatölu í því sambandi. Eins og bættar samgöngur muni ekki hafa áhrif á það að vegirnir verði nýttir af fólki af öllu landinu. Hvað þá að umferð muni aukast eða að fólki ætti jafnvel eftir að fjölga á hinum endanum á veginum.
Ný fyrirtæki og frumkvöðlar á landsbyggðinni horfa fram á sömu vandamálin þegar þau íhuga að hefja rekstur. Hér á Vestfjörðum eru lítil iðnfyrirtæki, sprotarnir okkar, að hugsa sér til hreyfings suður þar sem hátt raforkuverð, hár flutningskostnaður aðfanga og afurða á markað er hreinlega að sliga þau. Mikil áhersla hefur verið lögð í stoðkerfinu á tækifæri í nýsköpun bæði í starfandi fyrirtækjum og hugmyndir að stofnun nýrra sprotafyrirtækja. Sú stefna er tilgangslaus ef ekki er hlúð að þeim fyrirtækjum og atvinnuvegum sem fyrir eru.
Viljinn til að jafna þann aðstöðumun sem fyrirtæki á landsbygginni búa við þegar horft er til flutningskostnaðar er að því er virðist enginn hjá stjórnvöldum, hvorki í dag né hefur verið undanfarin ár. Það er eins og það sé órjúfanlegt lögmál að í dreifbýli þurfi að vera hátt vöruverð, lélegir vegir og hár flutningskostnaður. Því til stuðnings má benda á skýrslur á skýrslur ofan og aðgerðaleysið í kjölfarið.
Grein Guðrúnar Eggertsdóttur í heild: Um starfsumhverfi fyrirtækja á landsbyggðinni