Tenglar

22. október 2015 |

Er ekki kominn tími til að ræða þetta eitthvað?

Jón Einar Jónsson líffræðingur.
Jón Einar Jónsson líffræðingur.

Undanfarið rúmt ár hefur verið rætt að skera þang og þara til vinnslu úr grunnsævi Breiðafjarðar. Síðan virðast enn fleiri aðilar vilja sækja í botn Breiðafjarðar til slíkrar vinnslu og stórar tölur nefndar í tonnum af lönduðum þara og þangi. Nefnd hefur verið fimmföld núverandi þarataka Þörungaverksmiðjunnar á Reykhólum sem mögulegt markmið í þeim efnum.

 

Þessir „skógar sjávar“ eru hins vegar undirstaða alls lífs í Breiðafirði. T.d. hrygnir grásleppan í þaraskógunum og æðarkollan elur unga sína í klóþangsbreiðunum. Fari menn of geyst í þara- og þangtöku mun það raska tilveru lífríkisins sem er samfélagi okkar svo nákomið. Það er nú einu sinni náttúran sem gerir þennan stað að því sem hann er.

 

Þannig hefst pistill sem Jón Einar Jónsson líffræðingur í Stykkishólmi birti á Facebooksíðu sinni og gaf leyfi til að birta hér. Síðan segir hann:

 

Stórar áætlanir kalla á spurningar um hversu langt verður hægt að ganga. Þær spurningar eiga fullt erindi til samfélagsins, því það virðist ekki vera nein löggjöf um hve mikinn þara eða þang má taka eða hve oft.

 

Hversu mikið ætli lífríkið þoli en haldi samt starfsgetu sinni óbreyttri? Það eru engar rannsóknir til um það, hversu lengi X ferkílómetrar af brottnumdum þaraskógi eru að koma til baka, eða hvenær krabbarnir, kuðungarnir og marflærnar sem hurfu þaðan koma svo aftur. Það eru í mesta lagi til menntaðar ágiskanir um það hversu marga ferkílómetra er að finna af þara eða þangi í Breiðafirði.

 

Til er tæplega ársgömul ályktun (17.12.2014) frá Umhverfisnefnd Stykkishólms um málið:

 

Í ljósi hugmynda og umræðu um mögulega þörungaverksmiðju í Stykkishólmi hvetur umhverfisnefnd bæjarstjórn til að standa vörð um einstaka náttúru svæðisins og hafa hag umhverfisins að leiðarljósi í allri atvinnuuppbyggingu.

 

Þarna þykir mér vel að orði komist, en hvað er átt við nákvæmlega? Hvernig tryggjum við að ekki verði of langt gengið í nýtingu á þara og þangi, þegar afleiðingar svona vinnslu, ásamt höfuðstólnum sem á verður gengið, eru jafn illa þekktar og nú er? Hvaða ráðstafanir verða þaravinnslumenn látnir gera til að fyrirhuguð nýting verði sjálfbær, þ.e. fuglarnir verpi áfram og grásleppan hrygni?

 

Er ekki kominn tími til að ræða þetta eitthvað, og þá einhvern tíma áður en drengirnir mæta niður á bryggju?

 

 

- Jón Einar Jónsson líffræðingur er starfsmaður Háskóla Íslands og forstöðumaður Háskólaseturs Snæfellsness í Stykkishólmi.

 

Um Jón Einar Jónsson og rannsóknasetrið í Stykkishólmi á vef Háskóla Íslands

 

Sjá einnig:

03.10.2015 Óttast ofnýtingu þörunga í Breiðafirði

 

Pistil Jóns Einars má líka finna undir Sjónarmið í valmyndinni vinstra megin með fyrirsögninni Stórar áætlanir kalla á spurningar.

 

Athugasemdir

Þröstur Reynisson, fimmtudagur 22 oktber kl: 15:43

Ég stundaði þangskurð meira og minna öll sumur frá því Reykhólaverksmiðjan tók til starfa 1975 til 1998.
Ég hugsa að jafnvel Jói í Skáleyjum geti talið á fingrum lakari handarinnar þá sem hafa unnið lengur við þangskurðinn samanlagt.

Ég man að fyrstu árin var oft þrætt um hve þangið sprytti hratt.
Sumir sögðust hafa slegið sama skerið með tveggja ára bili og það hefði verið jafn loðið við annan slátt, þ.e um einn meter.
Ég sagði að þeir hefðu bara slegið illa í fyrstu umferð og endurvöxtur væri varla merkjanlegur eftir tvö ár þar sem ég hefði slegið.

Nú vitum við að klóþang bætir við sig einni bólu og einni grein á ári.
Það eru um 5 sm á milli bóla.
Einn sproti x 5 sm í ár veða 2 x 5sm. á næsta ári og 4 x 5sm. eftir 2 ár, svo ofnýting er fljót að segja til sín.

Ég man ekki betur en að sum árin milli 1980 og ´90 höfum við verið að fullnýta vöxtinn á opnum þanglöndum með 10.000 - -12.000 tonnum á ári.
Þá voru harðindi og ísar. Nú í seinni tíð hafa verið mun minni náttúruleg afföll af klóþanginu og rannsóknir nú myndu efalaust sýna mun meira þol, og því ekki vera marktækar nema við óbreytt árferði, sem enginn veit hvort varir enn.
Ég held það sé því hollast að láta 40 ára reynslu ráða í þessum efnum.

Um vöxtinn á hrossaþara og öðrum þarategundum veit ég fátt nema að mistök geta orðið hræðilega dýr.

Þröstur Reynisson

Sævar Helgason, mivikudagur 28 oktber kl: 22:43

Sorglegt að 40 ára reynsla skili ekkert af þekkingu. Þessi fullyrðing Þrastar Reynissonar hér að ofan er sorgleg vanþekking.

"Einn sproti x 5 sm í ár veða 2 x 5sm. á næsta ári og 4 x 5sm. eftir 2 ár, svo ofnýting er fljót að segja til sín."

Þröstur Reynisson, mivikudagur 04 nvember kl: 20:09

Því miður veit ég ekki deili á Sævari Helgasyni, né hvort hann er maður sem tekur því að reyna að svara. Geri það samt.
Umrædd fullyrðing er byggð á munnlegum upplýsingum frá Karli Gunarssyni líffræðingi.
Ég var með honum í rannsóknarferð á fyrstu dögum september 1984, og líklega vorum við staddir á tilraunareit sem hann átti fyrir neðan húsið hans Hafsteins í Flatey þegar umrætt spjall átti sér stað.
Ef þú hefur betri og réttari upplýsingar, vertu þá svo vænn að upplýsa okkur, en láttu það vera annars.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31