Er mikið af framsóknarmönnum í Reykhólasveit?
„Mig undirritaðan undrar það, að ekkert virðist vera fjallað á Reykhólavefnum um þá hugmynd sem kom fram frá háskólamönnum á Ísafirði um hugsanlega þverun Þorskafjarðar ásamt virkjun sjávarfalla. Á þessu var að vísu tæpt sem frétt - og svo ekkert meir.
Ég er ekki alveg að skilja þessa þráhyggju með lagningu vegar um Gróunes og Hallsteinsnes, Teigsskóg og fyrir botn Þorskafjarðar, þar sem úrskurður Hæstaréttar bannar þá framkvæmd, að vísu um afmarkað svæði af þessari leið, Hallsteinsnes að Gröf. Hér þarf að koma á alvöru umræðu af hálfu Reykhólahrepps um þessa hugmynd um þverun Þorskafjarðar frá Skálanesi að Stað. Ég er orðinn leiður á þessu þagnarmynstri sem hér virðist helst vera haldið í heiðri, þvert á hugmynd sem er vel þess virði að skoða.
Séra Baldur í Vatnsfirði hringir gjarnan í mig til skrafs og umræðu um landsins gagn og nauðsynjar. Þetta barst meðal annars í tal við hann og þá möguleika að komast jafnvel án fjallvega frá Vestfjörðum til suðvesturhornsins. Ég sagði honum bara það sem mér finnst um þetta tómlæti sveitarstjórnarmanna hér um þessa bráðsnjöllu hugmynd háskólamanna á Ísafirði. Hann hugsaði sig um smástund og sagði svo: „Já góði, já já, - er mikið af framsóknarmönnum þarna í Reykhólasveitinni?" Ég taldi þá vera nokkra. „Já sérðu góði minn, þeir steinhalda allir kjafti og bíða eftir að verða jarðaðir." Kannski er þetta rétt hjá presti að við séum orðtregir og athafnalitlir í umræðu um mál sem varða búsetu og búsetuskilyrði.
Mig langaði bara svona að vekja athygli á þessu og hvetja þig sem ritstjóra Reykhólavefsins til að kynda undir umræðu fólks á vefnum um þessar tilteknu hugmyndir manna um vegabætur og raforkuvirkjun í sama pakkanum. Væri fróðlegt að sjá hverjar undirtektir yrðu. Þetta er 40 ára gömul hugmynd Magnúsar heitins í Vesturbotni í Patreksfirði, svo eitthvað sé nefnt.
Með kveðju.
Þorgeir Samúelsson, Höllustöðum."
Undir lokaorð Þorgeirs skal tekið og fólk í Reykhólahreppi (og aðrir, ef út í það fer) hvatt til að leggja orð í belg um þessi brýnu hagsmunamál íbúa sveitarfélagsins og Vestfirðinga yfirleitt.
Ingvar Samúelsson, fstudagur 15 oktber kl: 12:54
Löngu tímabært að hrinda Þessari framkvæmd á a leiö af stað. Ég er ekki framsóknarmaður.Í dag væri hægt að vinna þessa framkvæmd á 60-70% kostnaðaáætlun.Kinning hjá Bjarna var góð á fundi hér í Reykhólaskóla ,og gaman væri að vita hvað þessi hugmind væri kominlangt á veg. Kv.