Tenglar

24. desember 2013 | vefstjori@reykholar.is

Er „síldin sem hvarf“ inni í Hvammsfirði?

Myndir 1-3 eru af skjá dýptarmælisins í Rán BA á siglingu um Hvammsfjörð. Nánar í meginmáli.
Myndir 1-3 eru af skjá dýptarmælisins í Rán BA á siglingu um Hvammsfjörð. Nánar í meginmáli.
1 af 5

„Þessi fiskur sem er inni á Hvammsfirði núna hleypur væntanlega á einhverjum hundruðum þúsunda tonna. Þetta er örugglega síld, að minnsta kosti lítum við svo á þangað til annað kemur í ljós,“ segir Bergsveinn Reynisson á Gróustöðum í Reykhólahreppi. Hann og félagi hans, Jóhannes Haraldsson frá Kletti í Kollafirði, hafa lengi fylgst með lífríkinu í Breiðafirði.

 

„Þetta hefur haft talsverðan aðdraganda,“ segir Bergsveinn. „Mér skilst að Hafrannsóknastofnun vilji hafa helst um 500 þúsund tonn af síld hérna hringinn í kringum landið. Á þessum árstíma á síldin að vera á vetrardvalarstöðvum. Þá hefur hún leitað sér að stað með köldum sjó, ofurlítið ferskvatnsblönduðum, til að hægja á líkamsstarfseminni. Semsé að liggja bara í leti yfir veturinn eins og allir ættu náttúrlega að gera,“ segir hann.

 

„Í mælingunum í haust gátu þeir aldrei fundið nema um 200 þúsund tonn samtals, kannski um 50 þúsund tonn hérna við norðanvert Snæfellsnes, í Kolgrafafirði og í grennd við Stykkishólm, og kringum 130 þúsund tonn fyrir suðaustan land. Þannig hefur alveg vantað um 300 þúsund tonn af síld.“

 

Jóhannes Haraldsson frá Kletti í Gufudalssveit hefur verið á reknetaveiðum við Stykkishólm síðustu ár og núna taldi hann ekki vera neitt af síld við norðanvert Snæfellsnes.

 

„Þó svo að maður hafi séð alls konar fyrirsagnir í fréttamiðlum um síldarmagnið í Kolgrafafirði, þá er það akkúrat ekki neitt núna miðað við það sem það hefur verið síðustu ár,“ segir Bergsveinn. „Jói er búinn að fara nokkuð víða á eikarbátnum sínum Fjólu BA síðustu vikurnar. Hann er búinn að fara í nánast alla firði í Austur-Barðastrandarsýslu [Reykhólahreppi] að leita að síld vegna þess að nánast öll síldin sem var við norðanvert Snæfellsnes virðist gengin inn í Kolgrafafjörð. Stóru nótaveiðiskipin eru ekki nema rétt rúmlega hálfnuð með kvótann sinn, eiga enn eftir um 30 þúsund tonn af óveiddri síld. Þeir vilja ekki smásíldina sem er fyrir suðaustan land. Þeir eru þess vegna komnir í dálítil vandræði með að klára kvótann sinn.“

 

Jóhannes Haraldsson var líka búinn að fara eina ferð inn á Hvammsfjörð á Fjólunni og sá þá á dýptarmælinum „eitthvert ryk við botninn“ eins og hann orðaði það. Síldarmiðin hafa verið þarna mest við Stykkishólm þannig að mönnum þótti líklegt að eitthvað af síld gæti slæðst inn á Hvammsfjörð. Jóhannes sigldi þarna um en sá þá ekkert sem líktist síldartorfu.

 

„Ég hef verið að reyna fyrir mér þarna með að veiða síld síðustu vikur, líka kringum Stykkishólm“ segir Bergsveinn, „og núna þegar allir voru að fara í jólafrí ákvað ég að sigla bátnum mínum inn að Búðardal. Þarna var ég að sigla inn Hvammsfjörð í ljósaskiptunum seinni hluta dags fyrir viku og sé þá á dýptarmælinum talsverða torfu. Við vorum nú ekki alveg vissir hvað þetta væri því að þetta leit nú kannski ekki út eins og venjuleg síldartorfa, þetta var ekki eins þétt og síldartorfurnar eru venjulega, þá verða þær alveg eldrauðar á dýptarmælinum. Þessi var svona meira ljósgræn og kannski líkari einhverju ryki.“

 

Jóhannes Haraldsson bar þetta undir Hafró og þar töldu menn að þetta hlyti að vera síld, að sögn Bergsveins.

 

„Það gæti ekki verið neitt annað og væri kannski þessi um þrjú hundruð þúsund tonn af síld sem væru ófundin. Þeir voru búnir að fara einn leitarleiðangur hér um Breiðafjörð á Dröfninni án þess að finna neitt. Núna í byrjun janúar voru þeir farnir að fyrirhuga leiðangur á Bjarna Sæmundssyni hérna í kantana fyrir vestan land til að leita að því hvar í ósköpunum þessi þrjú hundruð þúsund tonn af síld væru.

 

Við vorum alveg vissir um að það væri ekkert hér um slóðir af því að þarna í kringum Stykkishólm hefur þetta ekkert leynt sér. Hvenær sem maður sér einhvers staðar síldartorfu eru komnir hvalir og mávar og ernir og skarfar í stórum flotum að atast í þessum torfum.

 

En við vorum ekki alveg vissir hvað ég sæi á dýptarmælinum þegar við sigldum þarna inn úr, þannig að við fórum aftur núna í Hvammsfjörðinn með síldarnetin með okkur. Þá fórum við í myrkri og þá leyndi sér nú ekkert þegar við komum á staðinn að þetta var síldartorfa. Hún var liggjandi uppi í sjó, það var reyndar 60 metra dýpi þar sem hún er, þannig að það voru nú 40 metrar niður á torfuna, okkur til mikillar furðu, vegna þess að það var enginn fugl eða hvalur eða neitt í þessu. Háhyrningarnir vilja trúlega ekki fara inn á Hvammsfjörð og skarfurinn virtist bara ekkert vita af henni þarna fjörutíu metra undir yfirborðinu. Mávarnir ná nú ekki síldinni á þessu dýpi svona dagsdaglega en þeir reyna að stela þessu af skarfinum þegar hann kemur með hana upp því að hann er í standandi vandræðum með að gleypa síld, hún er svo stór. Þá upphefst alltaf heljarinnar bægslagangur hvar sem er síld undir, en þarna var ekkert svoleiðis. Þarna var bara stór köggull, tuttugu metra þykkur og ein og hálf míla á kant. Þessi síldartorfa er það stór, að það væri til dæmis ekki nokkur möguleiki að koma henni fyrir í þessum þéttleika innan við brúna í Kolgrafafirðinum.“

 

Aðspurður hvað þetta gæti verið í tonnum talið segir Bergsveinn:

 

„Eftir því sem við komumst næst því að fá einhver svör frá Hafrannsóknastofnun, þá sögðu þeir að í flekk sem væri ekki nema einn fjórði af þessu gæti það hlaupið á nokkrum hundruðum þúsunda tonna, það færi allt eftir þéttleika. Ég held allavega að þetta hafi verið einhver hundruð þúsund tonn.“

 

Hafrannsóknastofnun stefnir á að koma strax eftir áramótin með Dröfnina og reyna að mæla magnið og átta sig betur á þessu og sjá hvað þetta er, að sögn Bergsveins. „Hvammsfjörður er stór þannig að okkur hefur hæglega getað sést yfir torfur. Við sjáum bara það sem er undir bátnum.“

 

Bergsveinn segir að enda þótt þetta sé svona gríðarlega mikið, þá sé þetta ekkert í líkingu við aðstæðurnar sem voru inni í Kolgrafafirði þar sem síldin var að drepast úr súrefnisskorti.

 

„Þetta var bara pínulítill blettur á Hvammsfirðinum, hann er svo miklu stærri en Kolgrafafjörður. Og svo er alltaf vindur meira og minna á Hvammsfirðinum til að bæta súrefnið í sjónum, ekki bara stundum eins og í Kolgrafafirði.“

 

Siglingaleiðin inn á Hvammsfjörð er mjög erfið því að mynni hans er girt eyjum og hólmum.

 

„Inni á Hvammsfirði eru einna mestar líkur á því að síldin fái að vera í friði. Háhyrningarnir virðast ekki fara þar inn, fuglarnir virðast ekki finna hana og stóru uppsjávarveiðiskipin eiga ekki greiða leið inn á Hvammsfjörð. Þau yrðu að sigla gegnum Röstina og þar er dýpið á siglingaleiðinni ekki nema fimm metrar. Þarna er hreinlega girðing fyrir utan. Kannski má með lagni með nútíma siglingatækjum finna eitthvað dýpri leið, en þessi stóru uppsjávarveiðiskip rista um átta metra eða meira þegar þau eru hlaðin. Eða eins og einhver sagði: Ekkert mál að lóðsa þau inn en þau yrðu sko sjálf að bjarga sér út. Svona skip kosta einn til tvo milljarða. Ég veit ekki hvort þeir fara þarna inn en ég get ímyndað mér að þeir séu nú ekkert spenntir fyrir því,“ segir Bergsveinn Reynisson, bóndi, skelræktandi og sjómaður á Gróustöðum við Gilsfjörð.

 

Myndir nr. 1-3 tók Jóhannes Haraldsson á föstudagsmorgun af skjá dýptarmælisins í Rán BA, báti Bergsveins Reynissonar, á siglingu um Hvammsfjörð. Á fyrstu tveimur myndunum sést hvernig torfan leit út á dýptarmælinum þegar siglt var yfir meðan enn var myrkur. Á þeirri þriðju er orðið bjart og torfan lögst á botninn.

 

- Hlynur Þór Magnússon.

 

Athugasemdir

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, mivikudagur 25 desember kl: 11:36

Gleðileg jólagjöf algóða almættisis til smábátaveiðimanna.

Vegir Guðs og réttlætisins eru órannsakanlegir, fyrir óréttláta fiskistofu-Júdasar-hirðsveina.

Sem betur fer eru fiskistofu-Júdasar í 101-Reykjavík ekki almáttugur Drottinn.

Einar Ólafsson heitinn, sem bjó á Lambeyrum í Laxárdal, benti mér eitt sinn á fuglager úti á Hvammsfirði. Sá reynslumikli sjómaður frá unga-aldri, sagði mér að svona höguðu fuglar sér ekki úti á firði, nema þar væri æti. Þetta var alveg nýtt fyrir mér, því það var alltaf talað um að Hvammsfjörður væri fisklaus. Sjómenn með reynslu vita hvað þeir eru að tala um.


Það er traustvekjandi fyrir smábátasjómenn að ekki skuli vera fært í gegnum hættulega röstina í mynni Hvammsfjarðar, fyrir fiskistofu-Hákarla.

Nú er bara að veiða síldina, hver sem betur getur. Það er án efa mikil synd að nýta ekki gjafir jarðar, þegar almættið hagræðir í samræmi við réttlæti Guðs og manna.


M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Desember 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31