Er þetta sú byggðaþróun sem við viljum?
Einn góðan veðurdag er staðan sú, að sjávarþorpin, sem iðuðu af mannlífi og nægri atvinnu, standa frammi fyrir því að þaðan megi ekki stunda sjósókn lengur, fiskvinnsla leggst af og þjónustuaðilar hverfa og opinber starfsemi fjarar út smátt og smátt. Búið er að mergsjúga allt fjármagn í burtu svo að þeir sem eftir sitja hafa ekkert fjármagn né lánstraust til þess að skapa sér atvinnu eða gera eitthvað annað. Þannig birtist hinn kaldi veruleiki einu þorpi í dag og öðru á morgun og enginn veit hver verður næstur.
Ofanritað er klausa úr grein sem Lilja Rafney Magnúsdóttir á Suðureyri við Súgandafjörð, þingmaður Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi, sendi vefnum til birtingar undir fyrirsögninni Þorpin okkar! Þar segir einnig:
Er þetta sú byggðaþróun sem við viljum sem þjóð, að sjávarþorpin okkar hringinn í kringum landið standi frammi fyrir, að þau dagi uppi með sína menningu, fjölbreytt mannlíf og menningararf og sögu? Ég segi nei! Það getur ekki verið að við séum svo skammsýn, að við ætlum að kasta fyrir róða öllum þeim mannauði og verðmætum sem skapast hafa í hverju sjávarþorpi, það væri glapræði.
En tíminn er naumur og byggðastefna liðinna ára hefur verið ómarkviss og handahófskennd. Hún hefur birst í skammtímalækningum og plástrum hér og þar í stað þess að sýna þor eða vilja til að taka á meininu sjálfu, sem er hægt er að bæta með því að tryggja undirstöður þorpanna með aðgengi að fiskimiðunum og binda aflaheimildir varanlega við byggðirnar. Ég vil umbylta kvótakerfinu öllu, en byggðafesta aflaheimilda við þessi þorp er aðgerð sem á strax að taka út fyrir sviga og fólk úr öllum flokkum á að sammælast um að framkvæma. Vilji er allt sem þarf!
Önnur brýn byggðamál, eins og samgöngur, jöfnun búsetuskilyrða og góð heilbrigðis- og menntunarskilyrði óháð búsetu, verða áfram baráttumál. En undirstaðan verður að vera til staðar svo hægt verði að auka fjölbreytni í atvinnulífinu með góðri háhraðatengingu og ótal tækifærum í ferðaþjónustu og annarri nýsköpun, s.s. þjónustu við sjávarútveginn.
Grein Lilju Rafneyjar má lesa hér í heild og undir Sjónarmið í valmyndinni til vinstri.