Tenglar

28. maí 2013 | vefstjori@reykholar.is

Erlendum fuglaskoðurum fjölgar með hverju árinu

Steinar fyrir dyrum Álftalands.
Steinar fyrir dyrum Álftalands.
1 af 2

„Sumarið lítur bara mjög vel út hjá okkur, mikið af hópum búið að bóka og mér sýnist líka að lausatraffíkin verði mjög góð, jafnvel meiri en í fyrra,“ segir Steinar Pálmason, sem rekur gistiheimilið Álftaland á Reykhólum og hefur gert um árabil. Hóparnir sem um ræðir eru fyrst og fremst útlendir fuglaskoðarar, aðallega frá Ítalíu og Spáni. Þar sem jafnan er mikið um þýska ferðamenn í slíkum erindagerðum á Íslandi er Steinar spurður hvort hann hafi gert sérstaklega út á Ítalíu og Spán.

 

„Það æxlaðist bara þannig að hingað komu hópar fuglaskoðara frá ákveðinni ferðaskrifstofu og þeim hefur síðan fjölgað jafnt og þétt. Þegar ég kom hér fyrir átta árum voru hóparnir átta það sumar en núna eru 25 hópar frá sömu ferðaskrifstofunni.“

 

Steinar segir að í hverjum hópi séu yfirleitt frá tólf og upp í tuttugu manns. „Þeir gista hér eina nótt og fara síðan á Látrabjarg.“

 

- Þeir eru þá í fuglaskoðun hér á Reykhólum á meðan þeir staldra við?

 

„Já, þeir fara beinustu leið niður í fuglaskoðunarhúsið við Langavatn og fara um svæðið hérna fyrir neðan Reykhóla, niður að Lómatjörn og þar í kring.“

 

Aðspurður hvernig gestirnir láti af því að skoða fuglalífið á Reykhólum segir Steinar: „Þeim finnst það alveg æðislegt og frábær upplifun.“

 

Og ef svo væri ekki, þá myndi fuglaskoðurum á Reykhólum á vegum sömu ferðaskrifstofunnar varla fjölga með hverju ári.

 

Sjá einnig:

03.08.2012 Þetta vindur upp á sig

22.03.2012 Fuglaskoðun er vannýtt auðlind Breiðafjarðar

10.07.2009 Gósenland fugla og ferðafólks á Reykhólasvæðinu

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31