Ert þú með góða hugmynd ...?
Ert þú með góða hugmynd og langar að hrinda henni í framkvæmd? er spurt í bæklingi til kynningar á framkvæmd Vaxtarsprota í Reykhólahreppi og Dalabyggð. Á miðvikudag í næstu viku (10. september) verða kynningarfundir á Reykhólum og í Búðardal, þar sem Elín Aradóttir verkefnisstjóri kynnir Vaxtarsprota. Þar munu einnig Vilhjálmur Vernharðsson og Elísabet S. Kristjánsdóttir sauðfjárbændur í Möðrudal á Fjöllum segja frá reynslu sinni, en auk hefðbundins búskapar reka þau kjötvinnslu og ferðaþjónustu, og Kjartan Ragnarsson, leikstjóri og forstöðumaður Landnámsseturs í Borgarnesi, flytur erindi með heitinu Að finna sína fjólubláu kú.
Fundirnir eru opnir öllum áhugasömum um atvinnumál í Reykhólahreppi og Dalabyggð. Fundurinn á Reykhólum verður í Reykhólaskóla og hefst kl. 15. Fundurinn í Búðardal verður í Dalabúð og hefst kl. 20.30.
Verkefnið Vaxtarsprotar er stuðningsverkefni sem ætlað er að hvetja fólk til að skapa sér atvinnu í heimabyggð. Það er opið öllum íbúum í sveit, óháð eðli viðskiptahugmynda, atvinnugreinum eða reynslu þátttakenda á sviði atvinnurekstrar. Íbúar í þéttbýli geta einnig verið með en ábúendur á lögbýlum hafa forgang.
Þátttakendur vinna með eigin viðskiptahugmyndir. Fulltrúum starfandi fyrirtækja er einnig velkomin þátttaka með það að markmiði að vinna að frekari framþróun eða mótun nýjunga í rekstri sínum.
Vaxtarsprotar eru á vegum Impru á Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Framleiðnisjóðs landbúnaðarins. Unnið er í samstarfi við Búnaðarsamtök Vesturlands og Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða.
Fólk í Reykhólahreppi er eindregið hvatt til að sækja kynningarfundinn ef kostur er. Á viðtökunum þar byggist framhaldið.
Kynningarbæklingurinn (pdf).
Viktoría ATVEST, fimmtudagur 04 september kl: 15:39
Áfram nú!
Allir sem ganga með nýja eða gamla verkefnahugmynd í maganum eiga fullt erindi á þetta námskeið. Líka þeir sem eru komnir eitthvað áleiðis í verkefnum sínum, en langar að fá aðstoð við gerð viðskiptaáætlana, vöruþróun, markaðssetningu, fjármögnun eða að komast í uppbyggilegan félagsskap til að koma eigin hugmyndavinnu af stað.
Ég hvet alla að kynna sér námskeiðið og hlakka til að fá tækifæri til að vinna með áhugasömum þátttakendum og veita þeim þá aðstoð sem þeir þurfa í verkefnavinnu sinni.
Einnig hef ég gaman að því að kíkja í heimsókn og fá tækifæri til að skoða hugmyndir ykkar nánar. Hafið endilega samband.
Námskeiðið verður ekki bara gagnlegt, heldur líka skemmtilegt.
Bestu kveðjur,
Viktoría
Viktoría Rán Ólafsdóttir
Verkefnastjóri
Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða, ATVEST
E-Mail: viktoria@atvest.is
Sími 451 0077
GSM 691 4131