Tenglar

23. ágúst 2008 |

Eru dagar Reykhólahrepps senn taldir?

Kristján L. Möller ráðherra sveitarstjórnarmála ætlar í vetur að leggja fram frumvarp á Alþingi þess efnis, að lágmarksíbúafjöldi sveitarfélaga verði þúsund manns í stað fimmtíu samkvæmt núgildandi lögum. „Það blasir því við stórfelld sameining fyrir vestan, því líklegt verður að teljast að frumvarp ráðherra verði samþykkt", segir á vef Ríkisútvarpsins í dag. Þar er einnig haft eftir Aðalsteini Óskarssyni, framkvæmdastjóra Fjórðungssambands Vestfirðinga, að ekki sé hægt að sameina sveitarfélög á Vestfjörðum í samræmi við hina fyrirhugðu breytingu á lágmarksfjölda fyrr en stjórnvöld hafi brugðist við þeim annmörkum varðandi innviði vestfirskra sveitarfélaga sem á slíku séu. Þar nefnir hann einkum samgöngumál og miklar fjarlægðir.

 

Nú eru tíu sveitarfélög á Vestfjarðakjálkanum og öll innan vébanda Fjórðungssambands Vestfirðinga. Eflaust kemur þetta mál til umræðu á Fjórðungsþingi Vestfirðinga, sem haldið verður á Reykhólum eftir hálfan mánuð.

 

Íbúar Reykhólahrepps voru 266 núna í ársbyrjun. Ef áform ráðherrans verða að veruleika, þá er ljóst að ekki væri nóg að Reykhólahreppur og Dalabyggð sameinuðust í eitt sveitarfélag, því að íbúafjöldinn í Dalabyggð er 708 og samanlagður íbúafjöldi yrði því 974 (hér eru í öllum tilvikum notaðar tölur Hagstofunnar um íbúafjölda 1. janúar).

 

Ekki myndi duga að öll sveitarfélögin fjögur í Strandasýslu sameinuðust í eitt, því að samanlagður íbúafjöldi yrði 748 manns. Ef öll sveitarfélög í Strandasýslu svo og Reykhólahreppur sameinuðust yrði það skammgóður vermir. Raunar yrði það alls ekki hægt miðað við þá stöðugu fólksfækkun sem verið hefur á liðnum árum.

 

Samanlagður íbúafjöldi í Strandasýslu og Reykhólahreppi var 1.014 manns núna í ársbyrjun og þegar kæmi að sameiningu eftir tvö-þrjú ár væri sú tala komin niður fyrir þúsundið með sama áframhaldi. Síðasta áratuginn hefur íbúum Strandasýslu fækkað jafnt og þétt eða úr 953 árið 1998 í 748 árið 2008 (fækkun um 21,5%) eða um liðlega 20 manns að jafnaði á ári. Í Reykhólahreppi stöðvaðist fólksfækkunin að vísu fyrir nokkrum árum og hefur fjölgað lítillega í hreppnum allra síðustu ár.

 

Þá væri sá kostur að Dalabyggð, Reykhólahreppur og sveitarfélögin í Strandasýslu sameinuðust í eitt sveitarfélag. Við fyrstu sýn mætti að vísu þykja hálfundarlegt að Hólmavík og Búðardalur yrðu í sama sveitarfélagi.

 

Einboðið væri að Tálknafjarðarhreppur sameinaðist Vesturbyggð enda er hann eins og eyja umkringd af landsvæði Vesturbyggðar, sem nær allt norður í miðjan Arnarfjörð. Ef Reykhólahreppur sameinaðist Vesturbyggð næðist tilskilinn íbúafjöldi - og talsvert meira en það ef Tálknafjörður yrði með í þeim pakka. Þó yrði að telja nokkuð langt til kóngsins fyrir íbúa Reykhólahrepps ef sveitarstjórn þeirra sæti á Patreksfirði, en þangað er 200 km akstur frá Reykhólum – fjögur hundruð kílómetra skreppitúr fram og til baka – eftir alþekktum eða öllu heldur alræmdum vegum héraðsins.


Á sameiningarmálum eru einnig ýmsar fleiri hliðar, svo sem þegar lítil og vel stæð og vel rekin sveitarfélög missa forræði sitt og hverfa inn í stærri sveitarfélög þar sem fjárhagur og atvinnumál eru ekki upp á það besta.


Íbúafjöldi í vestfirskum sveitarfélögum og Dalabyggð um síðustu áramót:

  • Reykhólahreppur - 266
  • Vesturbyggð - 921
  • Tálknafjarðarhreppur - 290
  • Ísafjarðarbær - 3.955
  • Bolungarvíkurkaupstaður - 905
  • Súðavíkurhreppur - 214
  • Strandabyggð - 499
  • Árneshreppur - 48
  • Kaldrananeshreppur - 103
  • Bæjarhreppur - 98
  • Dalabyggð - 708
 

Athugasemdir

Halldór Jóhannsson, laugardagur 23 gst kl: 22:35

Hann K.L.M er bara ekki með réttu ráði.Stórborgarmaður.Burt með hann.Kveðja

Guðjón D Gunnarsson, sunnudagur 24 gst kl: 12:04

Kristján L. Möller sagði margt af viti, þegar hann var í stjórnarandstöðu. Nú virðist hann hafa komist yfir þann annmarka. Svo er spurningin, hver er stór og hver er það ekki? "Ísland er stærsta land í heimi" segir Dorrit.
Það væri gott að fá loforð um samgöngubætur, endurnýja loforðið frá 1987 við sameininguna þá. Þá vorum við hlið Vestfjarða, en því var nánast lokað með opnun Steingrímsfjarðarheiðar og Breiðafjarðarferju, svo og að hætta viðhaldi vegarins hér.
Hver hefði íbúaþróunin orðið í Reykhólahrepp hefði verið staðið við loforðin?

dagny stefans, mnudagur 25 gst kl: 18:41

er svo innilega sammála síðustu ræðumönnum þeir eru fljótir að gleyma loforðunum þegar þeir eru farnir að verma stólana á alþingi væri klm tilbúin að búa í okkar samfelagi eftir þessar breytingar sem rótast um í kollinum á honum póstþjónustan við okkur minkar gsm þjónustan til skammar vegaframkvæmdir lagðar til hliðar og svo þetta að koma okkur endanlega út í horn segi bara guð hjálpi þessari ríkisstjórn ef þetta á að ganga yfir okkur því þeir vita svo sannarlega ekki hvað þeir gjöra munið hugsa fyrst framkvæma svo en ekki öfugt

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31