Tenglar

23. ágúst 2012 |

Eysteinn í Skáleyjum jarðsunginn - æviágrip

Eysteinn Gísli Gíslason.
Eysteinn Gísli Gíslason.

Eysteinn G. Gíslason (Eysteinn í Skáleyjum), sem lést á Dvalarheimilinu Barmahlíð á Reykhólum 11. ágúst, verður jarðsunginn í Stykkishólmskirkju á morgun, föstudaginn 24. ágúst, og hefst athöfnin kl. 13. Sama dag verður jarðsett í Flatey. Þeim sem vilja minnast hans er bent á Flateyjarkirkju.

 

Eysteinn fæddist í Skáleyjum 30. september 1930. Hann var því kominn hátt á áttugasta og annað aldursár þegar hann lést. Foreldrar hans voru Sigurborg Ólafsdóttir úr Hvallátrum og Gísli Einar Jóhannesson í Skáleyjum.

 

Foreldrar Gísla voru hjónin María Gísladóttir og Jóhannes Jónsson, búendur í Skáleyjum. María lifði til hárrar elli í skjóli sonar og tengdadóttur og hafði mikil áhrif á uppvöxt barnabarna sinna. Foreldrar Sigurborgar voru Hvallátrahjónin Ólafur Bergsveinsson og Ólína Jónsdóttir. Ólafur dvaldi nokkur síðustu æviárin í Skáleyjum og hafði mikil áhrif á Eystein, sem vitnaði oft til hans.

 

Systkini Eysteins: Ólína Jóhanna, f. 1929, María Steinunn, f. 1932, Ásta Sigríður, f. 1935, d. 2009, Jóhannes Geir, f. 1938, Ólafur Aðalsteinn, f. 1944, og Kristín Jakobína, f. 1947. Fósturbróðir Skáleyjasystkina er Hilmar Jónsson, f. 1946. Þau urðu öll fjölskyldufólk og eiga marga afkomendur.

 

Börn Eysteins og Vigdísar Ágústsdóttur, sem bjó nokkur ár í Skáleyjum: Egill Teitur, f. 1980; Ingibjörg, f. 1982, maki Emil Kári Ólafsson, f. 1979, barn þeirra Vigdís Vala, f. 2011; Andrés Gísli, f. 1983. Sonur Vigdísar: Theódór Skúli Þórðarson, f. 1969, maki Sveinlaug Elín Harðardóttir, f. 1968, börn þeirra Eydís Anna, f. 1995, og Vala Kristín, f. 1998.

 

Eysteinn ólst upp í Skáleyjum við hefðbundin bústörf í eyjunum. Barnaskólanámið var farkennsla hluta úr hverjum vetri. Síðan stundaði hann nám í Handíðaskólanum í Reykjavík 1947-48 og Bændaskólanum á Hvanneyri 1951-53. Snemma fór Eysteinn að vinna við smíðar með öðru og sá um ýmsar nýbyggingar og breytingar á húsakosti í Skáleyjum. Árið 1958 fór hann að heiman og til starfa á Tilraunastöðinni á Reykhólum, þar sem hann var í þrjú ár ásamt því að kenna við unglingaskólann á Reykhólum, m.a. smíðar. 1961-62 vann hann við póst- og símavörslu í Króksfjarðarnesi. 1962-77 var hann kennari á Flateyri og með kennslunni vann hann oft við smíðar. Á þessum tíma var hann í Skáleyjum á sumrin og aðstoðaði foreldra sína.

 

Árið 1977 hóf Eysteinn búskap í Skáleyjum í félagi við Jóhannes bróður sinn. Frá árinu 2002 dvaldi hann að mestu í Barmahlíð, með sumardvöl í Skáleyjum eftir því sem heilsan leyfði. Afkomendur þeirra Jóhannesar tóku síðan við 2008 og eru með sumarbúskap í eyjunni.

 

Eysteinn skrifaði mikið um ævina, bæði greinar og ýmsan fróðleik í bækur og blöð. Einnig orti hann mikið og birtust kvæði hans og gamanvísur víða. Hann var kjörinn til margra trúnaðarstarfa á sviði landbúnaðar og félagsmála.

 

 Hverjir luma á kveðskap eftir Eystein í Skáleyjum?

 Limrur eftir Eystein í Skáleyjum

 Myndlist og ljóðlist í stigagangi í Barmahlíð

 Gátan: Svarendur og handrit Eysteins sjálfs

Selaveislur 2001, 2005, 2006 og 2007

 

Athugasemdir

Orn Eliasson, fstudagur 24 gst kl: 15:40

Eg olst upp in Tilraunastodinni a Reykholum og eg a margar godar minningar af Eysteini. Hann var hagyrtur, eins og vid vitum oll, godur drattlistarmadur og smidur. Hann var mjog polinmodur vid okkur krakkana, og hann og Boas fra Laugalandi hofdu mig med ser i hlunnindunum og kenndu mer margt. Medal annar kenndi Eysteinn mer smidar a verkstaedinu i bragganum. Hann var godur kennari, og kenndi okkur einnig handavinnu i skolanum. Eg og systir min Edda nutum gestrisni hans og aettingjanna i Skaleyjum, sem okkur er minnisstaett. Seinna a aevinni byrjadi eg ad dutla vid gitarsmidi, og sonur minn Paul tok upp pradinn. Pad hefdi aldrei gerst hefdi hefdi eg ekki hitt Eystein. Vefsida Paul synir handverkid, sem allt eins gaeti verid minnigarsida um Eystein.

Hvil i fridi Eysteinn. Minning pin mun lifa medal okkar.

http://www.pauleliassonguitars.com/

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Oktber 2024 »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31