Tenglar

2. október 2013 | vefstjori@reykholar.is

FV: Aðför ríkisstjórnarinnar að landsbyggðinni

Stjórn FV: Ómar Már, Sveinn, Jóna (varamaður), Friðbjörg og Albertína. Nánar neðst í meginmáli.
Stjórn FV: Ómar Már, Sveinn, Jóna (varamaður), Friðbjörg og Albertína. Nánar neðst í meginmáli.

„Á fundinum fórum við yfir áhrif fjárlaganna á Vestfirði og það er óhætt að segja að verið sé að sparka í liggjandi mann. Við Vestfirðingar höfum verið að byggja upp sprota og nýsköpun undanfarin ár en hér er verið að stíga á það, hreinlega trampa á því.“ Þetta segir Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, stjórnarformaður Fjórðungssambands Vestfirðinga, í samtali við bb.is á Ísafirði í dag.

 

Sambandið er bandalag sveitarfélaga á Vestfjörðum, sameiginlegur vettvangur þeirra og málsvari. Reykhólahreppur er eitt þessara sveitarfélaga og á mann í stjórn sambandsins.

 

Í því sem hér að ofan er ritað vísar Albertína til stjórnarfundar FV í morgun vegna fjárlagafrumvarpsins sem lagt var fram í gær. Þetta kristallist meðal annars í því að ríkisstjórnin lækkar niðurgreiðslu til húshitunar og hættir niðurgreiðslu jöfnunar á flutningskostnaði. Í ofanálag sé sá litli peningur sem átti að fara í sóknaráætlun landshluta tekinn út og með því sé verið að slá út af borðinu gríðarlega mikla vinnu og tíma sem farið hefur í hin ýmsu verkefni á Vestfjörðum og öðrum landshlutum.

 

Niðurstaða fundar stjórnar samtaka vestfirskra sveitarfélaga í morgun er sú, að ríkisstjórnin sé að gera aðför að landsbyggðinni.

 

„Að minnsta kosti hér fyrir vestan höfum við verið að sjá margfeldisáhrif sóknaráætluninnar og höfðum gert okkur miklar vonir um framhaldið, lögðum fram mikla vinnu og mikinn tíma sem nú er bara glatað. Svo veltum við því líka fyrir okkur hvort forsætisráðherra og fjármálaráðherra tali ekkert saman, því á ársfundi Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi fyrir um tveimur vikum sagði forsætisráðherra að áfram yrði unnið að landshlutaáætlunum, sem síðasta ríkisstjórn hóf, með 630 milljóna framlagi á þessu ári til sóknaráætlana landshluta, en samkvæmt fjárlagafrumvarpinu á að fella niður allar fjárveitingar til þessa verkefnis. Hann sagði þetta aftur fyrir viku síðan á ársfundi Eyþings, samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi eystra. Við bara spyrjum: Vissi Sigmundur ekki hvað fjárlögin myndu fela í sér?“ spyr Albertína.

 

„Þess utan, þá er þetta aðför að landsbyggðinni að því leyti, að þeir ætla að fækka til muna stofnunum með færri en 30 starfsmönnum og eiga þær að heyra til undantekninga. Það á líka að skera niður í safna- og menningarmálum, en þar er verið að skera niður þessa sjóði sem litlu söfnin úti á landi, sem eru oftar en ekki einmenningssöfn, hafa getað sótt í meðan safnamál í Reykjavík eru nánast óskert,“ segir hún einnig.

 

Viðtalið við Albertínu á bb.is í heild

 

  • Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga skipa, auk formannsins Albertínu Friðbjargar Elíasdóttur á Ísafirði: Friðbjörg Matthíasdóttir, Vesturbyggð, varaformaður, Sveinn Ragnarsson, Reykhólahreppi, Ómar Már Jónsson, Súðavíkurhreppi, og Sigurður Pétursson, Ísafjarðarbæ. Myndin sem hér fylgir er fengin af vef FV og var tekin á stjórnarfundi sambandsins á Hrafnseyri við Arnarfjörð núna í ágúst. Þar vantar Sigurð Pétursson en í stað hans sat fundinn varamaðurinn Jóna Benediktsdóttir.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Febrar 2024 »
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29