FV spyrst fyrir um útsendingar RÚV í héraðinu
Komið hefur í ljós að þegar slökkt var endanlega á hliðrænni (analog) útsendingu RÚV núna þann 2. febrúar urðu í einhverjum tilfellum breytingar á möguleikum fólks í dreifbýli að ná útsendingunni. Dæmi eru um það í Strandabyggð að bæir, þar sem er heilsársbúseta og áður náðist hliðræn útsending með ágætum, eiga nú ekki kost á að ná stafrænni (digital) útsendingu þótt þeir hafi allan tilskilinn búnað. Merki frá sendi næst einfaldlega ekki og svör sem íbúar fá um úrbætur eru misvísandi eða óljós.
Fjórðungssamband Vestfirðinga (FV) hefur óskað eftir upplýsingum frá RÚV um þessar breytingar, m.a. hvaða staðir (lögbýli með skráðu lögheimili) það eru á Vestfjörðum öllum sem ná ekki stafrænni útsendingu. Ennfremur hvenær og hvað sé fyrirhugað að gera til að bæta þar úr.
Þetta kemur fram í orðsendingu frá Jóni Jónssyni á Kirkjubóli við Steingrímsfjörð, menningarfulltrúa FV.
Jafnframt er óskað eftir upplýsingum frá hverju sveitarfélagi fyrir sig, hvort sem þau hafa yfirlit yfir stöðu mála eða einstök dæmi um staði innan sinna vébanda þar sem ekki næst sjónvarpssamband, til samanburðar við svör RÚV. Íbúar Reykhólahrepps sem hafa eitthvað til þessara mála að leggja eru beðnir að láta skrifstofu hreppsins í té upplýsingar (skrifstofa@reykholar.is, s. 430 3200), en hún mun síðan koma þeim til Jóns.