Tenglar

21. febrúar 2015 |

Fáein æviatriði Gylfa Helgasonar

Gylfi og Hanna í hátíðabúningum. Nánari myndaskýringar í meginmáli.
Gylfi og Hanna í hátíðabúningum. Nánari myndaskýringar í meginmáli.
1 af 7

Gylfi Helgason var jarðsunginn á Reykhólum í dag í mjög fögru veðri; glaðasólskin og fjallahringurinn hvítur og bjartur, stund milli stríða í tíðarfarinu, ef svo má segja. Minningarathöfn var í Friðrikskapellu á Hlíðarenda í Reykjavík í gær, nánast á þeim stað undir Öskjuhlíðinni þar sem Gylfi fæddist. Sr. Elína Hrund Kristjánsdóttir sóknarprestur á Reykhólum annaðist báðar athafnirnar. Gylfi varð bráðkvaddur þann 6. febrúar á heimili sínu að Hellisbraut 2 á Reykhólum (Læknishúsinu). Eftirlifandi eiginkona hans er Ósk Jóhanna Guðmundsdóttir (Hanna) frá Gröf í Þorskafirði.

 

Gylfi og Hanna eignuðust þrjú börn. Þau eru:

 • Halla Sigrún f. 1976, maki Björn Kristján Arnarson. Börn þeirra: Sandra Ósk f. 2000; Björn Gylfi f. 2006.
 • Helgi Freyr f. 1980.
 • Una Ólöf f. 1984, maki Björn Ragnar Lárusson. Börn þeirra: Hrafnkell Máni f. 2004; Hafdís Birta f. 2008.

 

Gylfi Helgason (Jón Gylfi) fæddist að Hlíðarenda 30. október 1942 og var því 72 ára þegar hann lést. Foreldrar hans voru hjónin Helgi Jónsson og Sigrún Ásmundsdóttir, sem bæði eru löngu látin. Systir Gylfa var María Elísabet, f. 1934, d. 1984. Þegar Gylfi var í bernsku fluttist fjölskyldan um skamman veg í þéttbýlið nýja í Vatnsmýrinni sem fékk heitið Skildinganeskauptún en var í daglegu tali kallað Litli-Skerjó. Nýja heimilisfangið var Reykjavíkurvegur 23, en sú gata á flugvallarsvæðinu er ekki lengur til.

 

Gylfi kom vestur á Reykhóla árið 1974 þegar Þörungavinnslan var í undirbúningi og settist þar að með fjölskyldu sinni árið 1977. Árið 1983 varð hann stýrimaður á Karlsey, skipi verksmiðjunnar, og síðan skipstjóri frá 1985 og til starfsloka árið 2009 eða í nærri aldarfjórðung.

 

 

Í minningargrein í Morgunblaðinu í dag segir Einar Gylfi Haraldsson systursonur Gylfa meðal annars:

 • Gylfi var bara ekki frændi, hann var frændinn, ásamt því að vera vinur og velgjörðamaður. Það bar aldrei skugga á samband okkar né fór styggðaryrði á milli okkar þannig að ég muni. Mínar fyrstu minningar af Gylfa voru þegar hann, sem ungur maður á síðutogaranum Ingólfi Arnarsyni kom af sjónum heim í Litla-Skerjó og með honum skipshundurinn Móri. Móri var ávallt á undan heim og kom þangað löngu eftir að Gylfi hætti á Ingólfi.
 • En það voru ekki bara málleysingjar sem sóttu í félagsskap Gylfa, en leitun var að jafn mikilli barnagælu og honum. Gylfi gaf sér alltaf tíma til að spjalla við börnin og á þeirra forsendum. Ég veit að barnabörnin hans munu sárt sakna afa síns einmitt af þessari ástæðu.
 • Litli-Skerjó var þá ævintýraheimur og þar ólst Gylfi upp og þaðan komu hans nánustu vinir sem hann hélt sambandi við á meðan lifðu. Þegar Gylfi ólst upp var Litli-Skerjó sem þorp í miðri Vatnsmýrinni sem myndaðist þegar flugbrautin klauf Skildinganes.

 

Gunnlaugur Pétursson, svili Gylfa, segir m.a. í minningargrein:

 • Fyrstu árin voru aðalsamskipti okkar á haustin, þegar við smöluðum fé saman ásamt Guðmundi tengdaföður mínum, Gísla mági, Sverri svila og fleirum. Eftir smölun var oft glatt á hjalla og spjallað mikið við eldhúsborðið í Gröf. Komu þá stundum þeir Samúel í Djúpadal og Páll í Múla.
 • Bestu stundir okkar Gylfa voru fyrir sunnan gaflinn í Gröf, þar sem hann hafði komið upp ofni (kamínu) úr bobbingi til að hita okkur á síðkvöldum. Þar sátum við og spjölluðum saman á sumrin og haustin og ekki síst á „Grafardaginn“ um verslunarmannahelgina ásamt skyldmennum, mökum, börnum og barnabörnum og stundum ýmsum gestum. Þeirra stunda með Gylfa mun ég koma til með að sakna mjög.

 

Bjarni Ólafsson frá Króksfjarðarnesi segir meðal annars:

 • Gylfi Helgason hefur tengst okkur fjölskyldunni frá Króksfjarðarnesi í svo mörg ár, að við höfum ætíð talið hann hluta af fjölskyldu okkar. Hann kom fyrst ungur að árum og var í sveit hjá Bjarneyju ömmu. Hann hélt tryggð við fólkið og sveitina og dvaldist mörg sumur í Nesi og vann við ýmis störf. Gylfi var einnig mörg sumur hjá Þuríði föðursystur minni á Staðarfelli og var kappsamur og duglegur hvort sem var við heyskap, selveiðar eða hvað sem gera þurfti. Alltaf ríkti mikil hlýja og vinátta á milli þeirra, frænku minnar og hans.
 • Gylfi stundaði einnig sjóinn á sínum yngri árum og var um tíma háseti á togaranum Ingólfi Arnarsyni. Margar og skemmtilegar sögur heyrði ég frá togaraárum hans, enda var Gylfi einstaklega skemmtilegur frásagnarmaður og alveg stálminnugur.
 • Gylfi var einstakt ljúfmenni, svo barngóður og gamansamur að öll börn hændust að honum þó að ókunnug væru. Hann var dálítið forn í hugsun og hafði gaman af því að rifja upp liðna tíð, fara yfir gamlar myndir og segja manni frá liðinni tíð. Hann var hafsjór af fróðleik og hafði ég mjög gaman af að sitja með honum og fara yfir þessa hluti.
 • Við starfslok festi Gylfi kaup á gamla kaupfélagshúsinu í Nesi, bæði til að forða því frá niðurníðslu og til að finna því eitthvert verkefni. Þetta var örugglega meira af hugsjón en gróðavon, sem lýsir honum vel. Eftir veikindi sem hann glímdi við varð því miður lítið úr áætlunum hans. Eins og hann orðaði það sjálfur, þá gekk hann ekki á öllum eftir þau veikindi.

 

Jóhannes Geir Gíslason (Jói í Skáleyjum) skrifar m.a.:

 • Fallinn er nú fyrir aldur fram maður sem heldur en hitt puntaði sitt samfélag. Skoðana- og stefnufastur, ófeiminn að brýna sinn busa ef til ágreinings kom og var þá fastur fyrir. Hins vegar ekkert fyrir það að koma sér í forsvar eða ábyrgðarstöður á opinberum vettvangi umfram það sem beint tilheyrði starfi hans eða stétt.
 • Gylfi Helgason var grúskari, fróður vel og lesinn. Víða heima í sögu. Dáði góðar frásagnir, jafnt í bundnu sem óbundnu máli. Fimmtudagskvöldið 5. febrúar nýliðinn var haldin kvöldvaka á dvalarheimilinu Barmahlíð á Reykhólum, eldri borgurum safnað þar fleirum en á heimilinu búa. Flutt voru ljóð, bæði sungin og lesin. Gylfi var þátttakandi í flutningi og greip til nokkurra sinna dálætisljóða eftir kunna höfunda. Það var sannarlega ánægjustund að dagslokum. Morguninn eftir í bítið sótti hann heim gesturinn sem við öll búumst við.

________________________

 

Sá sem þetta færir í letur kynntist Gylfa og Hönnu fyrir liðugum þriðjungi aldar. Gylfi heitinn var bókamaður og grúskaði í hverju því sem greip áhuga hans; það var ærið margt og margvíslegt. Hann var ljóðelskur og prýðisvel kunnandi á kveðskap bæði gamlan og yngri, áhugasamur og fróður um sögu og menningu og sérlega gamansamur og skemmtilegur í viðræðu. Hætt er við að dregist hafi að skila einhverjum af þeim bókum sem hann kom með til að sýna og ræða um og lána þeim sem þetta ritar. Mestu skipta þó kynnin forðum þegar fram komu eðliskostir Gylfa sem ekki gleymast: Einstök hlýja og hjálpsemi.

 

 

Hér skal bætt við orðum Höllu Sigrúnar, dóttur Gylfa, þegar undirritaður var að taka saman þetta ágrip á útfarardegi hans:

 • Hann elskaði klassíska tónlist og stundum var kveikt á útvarpi á öllum hæðum og hátt stillt, þó að hann væri bara einn heima og sæti niðri í herbergi. Og svo söng hann, hátt og mikið, og fór stundum með ljóð og ruglaði röðinni, stundum viljandi held ég, svo að mamma leiðrétti hann. Hann var mikill prakkari og húmoristi. Pabbi var mikið elskur að barnabörnunum, svo stoltur og glaður og yngdist um mörg ár þegar hann vissi að þau væru væntanleg eða hann væri á suðurleið. Mikið óskaplega sakna ég hans!

________________________

 

Myndirnar sem hér fylgja spanna um hálfa öld í lífi Gylfa Helgasonar.

 

Mynd nr. 1:

Gylfi og Hanna í íslenskum hátíðabúningum í Bjarkalundi, prúðbúin til heiðurs Lilju Þórarinsdóttur á Grund. Þar var þá haldið upp á stórafmæli Lilju, sennilega þegar Reykhólahreppur heiðraði hana jafnframt með nafnbótinni Heiðursborgari Reykhólahrepps.

 

Mynd nr. 2:

Gylfi að líkindum nálægt fertugu.

 

Mynd nr. 3:

Gylfi og Hanna á æskuheimili hans í Litla-Skerjó. Myndin var tekin árið 1980 þegar Hanna gekk með Helga Frey.

 

Mynd nr. 4:

Skipstjórinn úfinn og skeggjaður í brúnni á Karlsey.

 

Mynd nr. 5:

Gylfi Helgason um tvítugt. Höllu Sigrúnu dóttur hans minnir að hann hafi sagt um þessa mynd, að hann hefði verið drifinn í myndatöku áður en hann fór út á sjó, og bætt því við hlæjandi að hann hafi ekki verið alveg allsgáður við þetta tækifæri!

 

Mynd nr. 6:

Ásamt Toppi sínum ungum. Gylfi hændist að börnum og dýrum og þau að honum.

 

Mynd nr. 7:

Þessi mynd var tekin á heimili Gylfa og Hönnu í Læknishúsinu gamla á Reykhólum fyrir nokkrum misserum. Þar var hann að sýna undirrituðum gamalt vöfflujárn úr Þorskafirði, talsvert frábrugðið þeim sem núna tíðkast í eldhúsum hérlendis.

 

________________________

 

– hþm

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Jl 2024 »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31