Tenglar

3. mars 2013 | vefstjori@reykholar.is

Fær veglegan ráðuneytisstyrk til smíði annars báts

Sjá myndaskýringar í meginmáli.
Sjá myndaskýringar í meginmáli.
1 af 5

Ráðuneyti atvinnuvega og nýsköpunar hefur veitt Hjalta Hafþórssyni á Reykhólum tveggja milljóna króna styrk til smíði á báti þar sem hann mun styðjast við teikningu í íslensku handriti frá 15. öld. Þennan styrk fær Hjalti í beinu framhaldi af mun lægri styrk sem ráðuneyti mennta- og menningarmála veitti honum fyrir réttu ári til smíði á endurgerð Vatnsdalsbátsins svokallaða frá 10. öld, en leifar hans fundust fyrir um hálfri öld í kumli í Vatnsdal við Patreksfjörð. Vegna aðstöðuleysis á Reykhólum smíðaði Hjalti þann bát á Siglufirði á liðnu sumri og vakti sú vinna mikla athygli bæði heimamanna og ferðafólks.

 

Á mynd nr. 1 er teikning Hjalta Hafþórssonar af bátnum sem hann ætlar að smíða að þessu sinni. Teikninguna í handritinu (Jónsbókarhandrit frá síðari hluta 15. aldar) má sjá á mynd nr. 2. Fræðimaðurinn Lúðvík Kristjánsson fjallar lítillega um hana í hinu mikla riti sínu Íslenskir sjávarhættir. Athygli vekur bæði að framstefni kemur nær lóðrétt á kjöl og jafnframt hversu breiðbyrtur þessi bátur er.

 

Á mynd nr. 3 er teikning Hjalta af bátnum án mannanna (eftirmynd bátsins í handritinu) og sést þar betur að hann er einu umfari lægri að aftan en framan. Að sögn Hjalta er þetta ólíkt því sem síðar þekkist í bátasmíðum hérlendis. Einnig segir hann, að vegna þess að efniviður í íslenska báta á fyrri öldum hafi að mestu verið beinir bolir á rekafjörum muni bein stefni hafa komið til sögunnar, ólíkt því sem var í öndverðu og síðan aftur á seinni tímum.

 

Frá Vatnsdalsbátnum var greint mjög ítarlega hér á Reykhólavefnum í fyrravor (sjá tengil hér fyrir neðan). Bæði er þar fróðleikur um bátinn úr riti Jóns Þ. Þór sagnfræðings, Sjósókn og sjávarfang, saga sjávarútvegs á Íslandi, og birtar myndir úr Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1966.

 

Til þess að fá aðstöðu til endurgerðar Vatnsdalsbátsins í fyrra leitaði Hjalti til stjórnar Síldarminjasafns Íslands á Siglufirði og fékk afnot af gamla slipphúsinu þar í bæ til smíði bátsins, sem nú er varðveittur á Siglufirði. Kostnaður við undirbúning verksins og smíðina sjálfa nam liðlega fimm og hálfri milljón króna. Útlagður kostnaður er aðeins hluti af þeirri tölu, því að inni í henni eru reiknuð vinnulaun Hjalta og Hafþórs Rósmundssonar föður hans, sem unnu verkið launalaust.

 

Myndir nr. 4 og 5 tók sr. Sigurður Ægisson á Siglufirði á liðnu hausti. Þær eru fengnar af vefnum siglfirdingur.is sem sr. Sigurður heldur úti og birtar hér með leyfi hans. Á þeirri fyrri er Hjalti glaðbeittur við Vatnsdalsbátinn nýja en á þeirri seinni er Hjalti nýbúinn að tjörubera hann.

 

30.08.2012 Fullt út úr dyrum að fylgjast með smíðinni

31.05.2012 Styrkur til endursmíði báts frá árdögum Íslendinga

 

Bátasmíðavefur Hjalta Hafþórssonar

 

Siglfirðingur.is - fréttavefur sr. Sigurðar Ægissonar

 

Athugasemdir

Jón Páll Asgeirsson, sunnudagur 03 mars kl: 23:57

Gaman að sjá að það er eitthvað gert til að halda í það gamla, það er alltof lítið gert í að halda við gömlum bátum, þeir grotna niður en alskonar kofar eru gerðir upp og lagfærðir fyrir miljónir, það er kannski gott. En Ísland er einu sinni eyja og það komst engin til og frá landinu nema á skip eða bát í fleir hundruð ár. Höldum í gömlu bátana þá fáu sem eftir eru. Endursmíðum líka svona báta sem sagnir eru til um og teikningar.

Eyvindur, mnudagur 04 mars kl: 07:58

Alveg magnað, til hamingju Hjalti. Vont er nú samt að geta ekki hýst þig hér um slóðir.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31