Færðu bókasafninu góða og uppbyggilega bókagjöf
Bókasafni Reykhólahrepps hafa áskotnast fjórar bækur að gjöf frá þeim Herdísi Ernu Matthíasdóttur og Kolfinnu Ýri Ingólfsdóttur á Reykhólum. Frá þessum bókum var greint hér á vefnum fyrir nokkru þegar rithöfundarnir Bjarni Fritzson og Kristín Tómasdóttur komu á Reykhóla og héldu sjálfstyrkingarnámskeið, sem heppnaðist með ágætum. Bækur þessar eru Stelpur, Stelpur A-Ö, Stelpur geta allt og Strákar.
„Kolfinnu og Herdísi fannst það mikilvægt að þessar bækur væru til á bókasafninu eftir þetta frábæra námskeið sem Kristín og Bjarni voru með hérna á Reykhólum,“ segir Harpa Eiríksdóttir bókavörður. „Bókasafnið er ávallt ánægt yfir því að fá bókagjafir og þakkar þessa flottu gjöf,“ segir hún.
Sjá einnig:
► Sjálfstyrkingarnámskeið fyrir stráka og stelpur
► Krakkarnir samheldnir og skemmtilegir