15. febrúar 2011 |
Færri börn fæddust á kjálkanum á síðasta ári
Þrjú börn fæddust í Reykhólahreppi á síðasta ári skv. upplýsingum á vef Hagstofu Íslands. Á Vestfjarðakjálkanum öllum fæddust 85 börn eða tólf færri en árið 2009. Rétt er að taka fram, að þótt talað sé um fædd börn í sveitarfélögum er átt við lögheimili en börnin geta vissulega hafa litið dagsins ljós í fyrsta sinn á fæðingarstofum annars staðar. Hugsanlegt er einnig í einhverjum tilvikum að raunveruleg búseta sé annars staðar, hvað sem lögheimili líður. Skv. sömu heimild fæddust 54 börn í Ísafjarðarbæ, 8 börn í Bolungarvíkurkaupstað, 7 í Vesturbyggð, 5 í Tálknafjarðarhreppi og 4 í Strandabyggð. Í Árneshreppi, Bæjarhreppi, Kaldrananeshreppi og Súðavíkurhreppi fæddist eitt barn í hverju sveitarfélagi.
Á vef Hagstofunnar segir, að meðalaldur mæðra hafi hækkað jafnt og þétt síðustu áratugi og konur eignist sitt fyrsta barn síðar á ævinni en áður var.