Fagna því að áfram verði tveir sjúkrabílar í Búðardal
Aðalfundur Menningar- og framfarasjóðs Dalasýslu (Dalasjóðs), sem haldinn var fyrir nokkrum dögum, fagnaði því að ákveðið hafi verið að fækka ekki sjúkrabílum í Búðardal um áramótin eins og fyrirhugað var. „Fundurinn bendir á þá sérstöðu sem héraðið hefur, með löngum vegalengdum og tímafrekum sjúkraflutningum, og leggur þunga áherslu á að áfram verði tveir sjúkrabílar staðsettir í Búðardal“, segir síðan í ályktun fundarins. Hér er ekki síður um að ræða öryggismál fólks í Reykhólahreppi en íbúa Dalabyggðar.
Stjórnarformaður sjóðsins er Þórður Ingólfsson yfirlæknir í Búðardal, sem um árabil hefur þjónað íbúum Reykhólahrepps. Auk hans eiga Bjarni Ásgeirsson í Ásgarði og Gísli Þórðarson á Spágilsstöðum sæti í stjórn sjóðsins.
Dalamaðurinn Friðjón Þórðarson var mjög lengi formaður stjórnar Dalasjóðs og til dauðadags fyrir nokkrum árum. Eftirfarandi klausa um sjóðinn er fengin úr pistilkorni sem Friðjón skrifaði árið 1996, en hann var stjórnarformaður Sparisjóðs Dalasýslu á árunum 1956-1965. Lokaorð hennar eru enn í fullu gildi þótt bráðum séu tveir áratugir frá því að þau voru rituð:
- Sparisjóður Dalasýslu var stofnaður árið 1891 og rekinn eins og hver annar sparisjóður til 1965 en þá tók Búnaðarbanki Íslands við rekstrinum. Varasjóður sparisjóðsins var þó varðveittur áfram en nafni hans var síðar breytt. Heitir hann nú Menningar- og framfarasjóður Dalasýslu, Dalasjóður, og eru reglulega veittir styrkir úr honum til héraðsmála.