Tenglar

8. mars 2013 | vefstjori@reykholar.is

Fannst í fyrsta sinn hérlendis í Reykhólasveit

1 af 4

Ný háplöntutegund, sverðnykra, bættist við flóru Íslands á liðnu sumri þegar starfsmenn Náttúrufræðistofu Kópavogs voru við rannsóknir í Berufjarðarvatni nærri Bjarkalundi í Reykhólasveit. Staðfesting á tegundargreiningunni fékkst nú á dögunum, að því er fram kemur í tilkynningu sem stofan sendi Reykhólavefnum ásamt meðfylgjandi myndum. Þar segir síðan:

 

Sverðnykran ber fræðiheitið Potamogeton compressus og tilheyrir hópi rúmlega 40 vatnaplantna sem lifa hér á landi, en alls eru þekktar um 490 háplöntutegundir í landinu. Sverðnykran vex á kafi í vatni og líkist helst grasi. Hún er hávaxin, verður allt að 2 m á hæð, og ber mjó, aflöng blöð sem eru um 0,5 cm breið og allt að 20 cm á lengd.

 

Sverðnykran í Berufjarðarvatni óx í þéttum breiðum á um 1,7 m dýpi, en mesta dýpi vatnsins mældist 2 m. Berufjarðarvatn liggur í 49 m h.y.s. og telst fremur lítið vatn, eða um 0,15 km2. Vatnið var mjög gróskumikið og í því uxu einnig síkjamari, grasnykra, fjallnykra, smánykra, þráðnykra, lónasóley, flagasóley, lófótur og gulstör.

 

Sverðnykran er evrópsk tegund og því markar þessi fundur hennar hér á landi ný vesturmörk á útbreiðslu tegundarinnar. Tegundin hefur átt undir högg að sækja víða í Evrópu vegna mengunar og röskunar á búsvæðum og því er hún á válista margra landa, þ. á m. í Bretlandi, Noregi, Svíþjóð, Danmörku og Þýskalandi.

 

Rannsókn Náttúrufræðistofunnar á Berufjarðarvatni er hluti af umfangsmiklu verkefni sem gengur undir heitinu Natura Ísland og er á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands. Meginmarkmið verkefnisins er að efla þekkingu á vistgerðum landsins í því skyni að stuðla að skynsamlegri umgengni og notkun á gæðum náttúrunnar. Í verkefninu eru verndargildi og verndarþörf vistgerða og tegunda metin og lagðar fram tillögur um verndarsvæði.

 

Verkhluti Náttúrufræðistofu Kópavogs snýr að vistgerðum í ferskvatni og hófust rannsóknir á síðasta ári með athugunum á gróðri í 40 vötnum á sunnan- og vestanverðu landinu. Um er að ræða fyrstu skipulegu rannsóknina á tegundasamsetningu og útbreiðslu vatnagróðurs í landinu.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30