Tenglar

12. apríl 2016 |

Farfuglar á Reykhólum fá sér í gogginn

Snæi og Simmi við vélina sjötugu.
Snæi og Simmi við vélina sjötugu.
1 af 7

Vorið er komutími farfuglanna í Reykhólasveit eins og annars staðar. Meðal vorboðanna eru líka flugvélarnar sem tylla sér á brautina á Reykhólum. Sumir sem þar eru á ferð heimsækja vini og vandamenn, aðrir skreppa í Hólabúð sem er rétt við flugbrautarendann til að fá sér eitthvað í gogginn og taka jafnvel bensín á vélina um leið. Eða fara í sund. Varla hefur liðið svo dagur núna undanfarið að ekki hafi komið ein vél eða fleiri og sumar hafa komið oftar en einu sinni.

 

Þar á meðal er sjötug vél af gerðinni Piper Cub, sem ber hinn dæmigerða skærgula lit fugla af þeirri tegund. Hún kom á sunnudag og aftur í gær og bensín var tekið í bæði skiptin. Þarna voru á ferðinni Snæbjörn Jónsson flugmaður frá Mýrartungu í Reykhólasveit (Snæi) og Sigmundur Magnússon (Simmi), sonur Magnúsar (Madda) Sigurgeirssonar á Reykhólum, Tómassonar. Simmi er í atvinnuflugmannsnámi og ætlar að nota vélina til flugtímasöfnunar en Snæi kemur til með að nota hana sér til skemmtunar.

 

Þeir Snæi og Simmi keyptu þessa vél af Flugklúbbnum Þyt núna í febrúar og komu á henni vestur á sunnudaginn. „Ég hef oft lent hér á Reykhólum gegnum tíðina og held ég að ég fari rétt með að þetta sé eina flugbrautin á landinu þar sem er bensíndæla við brautarendann. Það er því mjög þægilegt fyrir flugmenn á litlum vélum að taka hér bensín,“ segir Snæbjörn.

 

Nánar tilgreint er vélin þeirra félaga af gerðinni Piper J3C-65 frá Piper Aircraft, smíðuð árið 1946. Hámarksþungi er 553 kg og pláss fyrir einn farþega.

 

Myndirnar sem hér fylgja eru flestar teknar á Reykhólum í gær og fyrradag. Mynd nr. 6 er síðan af flugvélinni inni í „Bragganum“ á Krossnesi við Þorskafjörð, skammt frá Hofsstöðum, þar sem Snæi er með bækistöð sína hérna í Reykhólasveitinni og annan fótinn (hinn er suður í Mosfellssveit).

 

Mynd nr. 7 tók hins vegar Sveinn Ragnarsson á Svarfhóli í fyrradag af öðrum fuglum, sem reyndar eru ekki farfuglar heldur staðfuglar hér við Breiðafjörðinn. Þarna nýttu þeir sér uppstreymið við Hyrnuna upp af Króksfjarðarnesi.

 

Umsjónarmaður Reykhólavefjarins hefur í áranna rás iðulega tekið myndir og birt fréttir af flugvélum og flygildum af ýmsu tagi á Reykhólum og jafnvel til birtingar í öðrum miðlum fyrir tilkomu þessa vefjar fyrir átta árum. Tenglar á eitthvað af þessu eru hér fyrir neðan.

 

Fyrsta fréttin af því tagi á Reykhólavefnum birtist sumarið 2008, þegar Jóhannes Bjarni Guðmundsson flugstjóri (Jói Baddi) kom hingað á Cessnu árgerð 1953, einhverri fyrstu sjúkraflugvélinni hérlendis. Hún ber nafnið Björn Pálsson eftir fyrsta eiganda sínum, sjúkraflugmanninum alkunna, sem notaði hana alla sína tíð. Jói Baddi var þá að koma í heimsókn til Jónu Valgerðar Kristjánsdóttur móður sinnar í Mýrartungu.

 

Sama flugvél á sama stað 1955 og 2008

 

Flug-sund á björtum sunnudegi á Reykhólum

 

Komu á flugvél gagngert að sækja jólahangikjötið

 

Piper Cub við bensíndæluna á Reykhólum

 

Stórflott að koma hér – alveg dúndurgott

 

Flugvélar í biðröð eftir bensíni á Reykhólum

 

Kíkir á Reykhólavefinn í New York á morgun

 

Fisvélaferðin um Vestfirði var engu lík

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30