22. júlí 2013 | vefstjori@reykholar.is
Fáséð fuglategund í Bjarkalundi
Nokkuð óvenjulegur farkostur var á tjaldsvæðinu við Hótel Bjarkalund í Reykhólasveit aðfaranótt sunnudagsins. Það var þyrla frá Norðurflugi sem verið hefur á ferð með bandaríska kvikmyndatökumenn við myndatökur á ýmsum stöðum á okkar fagra landi. Á laugardagskvöldið kom hópurinn í Bjarkalund og snæddi kvöldverð áður en gengið var til náða á hótelinu og nýjum kröftum safnað fyrir komandi dag.
Mannskapurinn lét vel af matnum og gistingunni og öllum viðurgerningi og varð ekki síst tíðrætt um kyrrð og ró á þessum stað og alúðlegt starfsfólk í Bjarkalundi.