Fáum að njóta gamla vegarins í Gufsunni enn um hríð
Vegagerðin sækir ekki um framkvæmdaleyfi fyrir nýjum Vestfjarðavegi 60 um Teigsskóg fyrr en breytingar á aðalskipulagi í Reykhólahreppi liggja fyrir. Það getur tekið hálft ár eða meira. Fjallað er um þetta á ruv.is.
Skipulagsstofnun telur að breyta þurfi aðalskipulagi Reykhólahrepps til þess að veita framkvæmdaleyfi fyrir nýrri veglínu. Breytingaferlið er hafið og verður lýsing á breytingunum send Skipulagsstofnun og umsagnaraðilum til umsagnar innan skamms. Jafnframt verður hún og kynnt almenningi.
Ferli breytinga á aðalskipulagi tekur jafnan um hálft ár en getur þó tekið lengri tíma. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni verður ekki sótt um framkvæmdaleyfi til sveitarfélagsins fyrr en breytingum á aðalskipulagi er lokið og fullnægjandi upplýsinga aflað af hálfu sveitarfélagsins.