Tenglar

24. desember 2013 | vefstjori@reykholar.is

Fegurð við Breiðafjörð og heimsókn á Stað

1 af 3

Núna þegar jólin ganga í garð í Reykhólasveit og víðar enn sem fyrr skal hér birt mynd úr blaði af Staðarkirkju á Reykjanesi og fólki í forgrunni, jafnvel þótt hún hafi verið tekin um hásumar og sé ekki alveg ný. Hún var tekin fyrir hartnær hálfri öld og textinn undir henni er á þessa leið:

 

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, með hjónunum á Stað á Reykjanesi, Snæbirni Jónssyni og Unni Guðmundsdóttur. Gamla kirkjan á Stað í baksýn. Ný kirkja og glæsileg hefur nú verið reist á Reykhólum en gömlu kirkjunni á Stað mun samt verða haldið við. Hefur farið fram viðgerð á henni í sumar. Staðarkirkja er nú 100 ára gömul og hafa vinir kirkjunnar efnt til fjársöfnunar til þess að halda henni við. – Snæbjörn á Stað býr þar stórbúi, hefur yfir 400 fjár og 7 kýr. – Myndin hér að ofan var tekin sl. sunnudag.

 

Mynd þessi birtist í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins sunnudaginn 2. ágúst 1964. Reykjavíkurbréf birtist í Morgunblaðinu í fyrsta sinn síðla árs 1930 og tæpu ári síðar fóru bréfin að birtast þar reglulega [Jónas Ragnarsson: Dagar Íslands]. Jafnan er þar fjallað um ýmis óskyld mál hverju sinni. Kaflinn sem tengist myndinni er þannig:

 

 

Fegurð við Breiðafjörð

        Ísland er fagurt og stórbrotið land. Það er ekki aðeins skoðun okkar sem byggjum það, heldur flestra þeirra, sem sækja það heim. Í öllum byggðum Íslands og ekki síður í óbyggðum þess getur að líta dásamlega staði, töfrandi náttúrufegurð og hrikalegan mikilleik.

        Meðal þeirra landshluta, sem tvímælalaust má telja í tölu hinna svipmestu og fegurstu, eru héruðin í kringum Breiðafjörð. Að þessum mikla flóa, sem skerst inn í vesturströnd landsins, liggja þrjár sýslur, Snæfellsnessýsla, Dalasýsla og Barðastrandarsýsla. Strandlengja þeirra er geysilöng, vogskorin og fjölbreytt að öllu landslagi. Þar standa „risar á verði við sjóndeildarhring“, Snæfellsjökull í suðri og Látrabjarg í norðri. Í faðmi þessa mikla flóa fljóta þúsundir eyja og hólma, iðandi af lífi og baráttu. Fuglar og selir sveima þar allt um kring. Þegar farið er frá landi út í eyjar lækka fjöllin að baki og eyjarnar sem áður sýndust eins og furðuskip í ævintýri verða að veruleika. Þær svífa framhjá eins og litkvikmynd á stórbrotnu breiðtjaldi.

        Af Breiðafjarðareyjum eru nú aðeins örfáar byggðar. Sviptibyljir þjóðlífsbreytingatíma hafa leikið eyjabyggðirnar hart. En þar eru ennþá margvísleg hlunnindi, sem kostar mikla vinnu og erfiði að nytja.

        Þegar Mbl. var statt vestur á Reykhólum og Stað á Reykjanesi um síðustu helgi skein sól yfir Breiðafirði. Snæfellsjökull var þó hulinn móðu en Skorin teygði sig lengst í vestri fram í bláan og sólfáðan flóann. Hinn mikli fjöldi eyja og hólma myndaði samfellda perlufesti við hafsbrún.

        Slíkar myndir af fegurð Íslands eru svo sterkar og hreinar að þær hljóta að geymast í huganum og skapa yl í sálina löngu eftir að hríðar og él eru tekin að leika um fjöll og byggðir þessa fagra lands.

 

Ekki liggur fyrir hver skrifaði Reykjavíkurbréfið að þessu sinni. Sennilegt þykir undirrituðum að það hafi gert Matthías Johannessen skáld; stíllinn og ljóðrænan benda til þess. Matthías var ritstjóri Morgunblaðsins um tíma eða frá 1959 til 2000. Nema ritstjórinn fyrrverandi Bjarni Ben hafi gert það sjálfur og það er ekki ósennilegt heldur.

 

Náttúrufegurð í nútímaskilningi er sögð vera uppfinning rómantískra skálda á 19. öld á borð við Jónas. Áður mátu menn fegurð landsins eftir búsæld, sbr. ummælin Fögur er hlíðin, bleikir akrar og slegin tún o.s.frv. sem höfð eru eftir Gunnari Hámundarsyni ekki alls fyrir löngu.

 

 

Þetta tilefni skal notað til að minnast að nokkru hjónanna á Stað á Reykjanesi í Reykhólasveit, þeirra Unnar og Snæbjarnar, sem eru með Bjarna á myndinni.

 

Unnur Guðmundsdóttir (1914-2005) var frá Skjaldvararfossi á Barðaströnd, dóttir Friðgerðar Marteinsdóttur og Guðmundar Jónssonar búenda þar. Snæbjörn Jónsson (1909-1982) var upprunninn á Stað, sonur Ólínu Kristínar dóttur Snæbjarnar í Hergilsey og séra Jóns Þorvaldssonar sem var prestur á Stað rífan aldarþriðjung (1903-1938).

 

Hér skal áfram flett blöðum og tilfærð brot úr minningargreinum um Unni og Snæbjörn.

 

 

Játvarður Jökull á Miðjanesi segir í minningargrein um Snæbjörn á Stað:

 

        Snæbjörn var stefnufastur bóndi með ólíkindum. Hann tryggði sér ábúð á Brandsstöðum, hjáleigu frá Stað, kæmi búandi prestur að Stað. Þegar prestsetrið var flutt að Reykhólum fékk Snæbjörn Stað hálfan og Brandsstaði, en nýbýlið Árbær reis á hálflendu Staðar. Sauðfjárbú sitt hafði Snæbjörn þó á Brandsstöðum fram á 1959. Hann var metnaðargjarn bóndi, fjárbóndi af lífi og sál, stórbóndi í eðli og athöfnum og sýnt um að færa út kvíarnar, en heimakær og allur fyrir landsstörfin en ósýnt um þá sjómennsku sem hlunnindin á Stað útheimta.

        - - -

        Þegar Snæbjörn er horfinn sjónum kemur margt í hugann eftir ævilangt nágrenni. Furðulegt var um þann framtaksbónda, að hann lærði aldrei á bíl og ók ekki dráttarvél nema til neyddur. Svo rótgróin var í honum tryggðin við minningu góðhestanna, sem áttu hug hans allan fyrstu fjörutíu árin. Hana varðveitti hann ómengaða til hinsta dags, enda eru þeir líklegir til að taka á móti honum á landi lifenda, þeir Skundi og Eldur og aðrir horfnir góðhestar liðinna daga.

 

 

Jón Ólafsson í Börmum skrifar svo um Unni á Stað:

 

        Það var árið 1971 að mér auðnaðist að kynnast þessari merku, hæglátu og æðrulausu konu, Unni Guðmundsdóttur. Hún bjó þá ásamt manni sínum, Snæbirni Jónssyni bónda, og börnum þeirra, myndarbúi á Stað.

        Sá sem þangað kom skynjaði strax trausta íslenska sveitamenningu, þar sem ekkert var búendum óviðkomandi. Víðsýni, hagkvæmni, umhyggja og framfarir mátti telja aðalsmerki þeirra hjóna.

        Þetta var á þeim árum þar sem sundur var að skilja milli eldri og nýrri búskaparhátta. Það var því ekki lítill fengur að geta leitað í smiðju húsráðenda þegar verið var að hefja uppbyggingu Barma, síðasta torfbæjar á Vestfjörðum, sem þá var enn unnt að bjarga frá glötun. Það var okkur sem stóðum að uppbyggingunni ómetanlegt að eiga slíka bakhjarla.

        Unnur stóð þar vaktina, tók á móti, liðsinnti. Það var ekki tildrið eða glamuryrðin sem einkenndi hana. Yfirvegun, varfærni í tali, hlédrægni, en þó fyrst og fremst reisn hinnar íslensku bóndakonu var þar að finna. Þetta veit ég að fylgdi Unni til síðasta dags, umhyggja fyrir öðrum og óskin um að hún ylli ekki umstangi umfram það nauðsynlegasta.

 

 

Ólína Kristín Jónsdóttir frá Mýrartungu skrifar:

 

        Það verður skrýtið að koma að Stað núna þegar amma hefur kvatt þennan heim, amma á Stað hefur verið fastur punktur í tilverunni frá því ég fæddist. Ég man þegar ég var krakki og við fórum út að Stað hvað það var mikið sport að keyra fyrir beygjuna hjá Brandsstöðum og sjá tignarlegt húsið birtast, þá var maður kominn. Alltaf var boðið upp á kakómalt og afi lumaði á brenndum brjóstsykri meðan hans naut við. Amma var strangtrúuð og var hún leikin við að sjá hlutina eins og hún vildi, þynnka var ekki til hjá henni, fólk var bara svo óheppið að fá flensu!

        Ég verð ævinlega þakklát Eika og Fríðu fyrir að hafa gert ömmu kleift að búa á Stað þar til yfir lauk. Hún vildi ekki annars staðar vera þó að æskustöðvarnar á Barðaströnd hafi verið henni kærar. Líklega hefur henni verið innanbrjósts eins og pabba [Jóni Snæbjörnssyni frá Stað, Manna í Mýrartungu] þegar hann orti:

 

Víst elska ég Staðinn og allt sem þar lifnar og grær

og ekkert í heiminum slitið mig burt þaðan fær.

Á víkinni báran sér vaggar hjá örsmárri hlein

því vorið er komið og fegurðin ríkir hér ein.

 

 

Og lýkur þannig þessari jólasamantekt með upphafinu: Fegurðinni við Breiðafjörð.

 

- hþm

 

Athugasemdir

Sigurbjörn Sveinsson, mivikudagur 25 desember kl: 11:23

Þetta er vel gert Hlynur Þór. Hafðu þökk. Óska þér og öllum í Reykhólahreppi gleðilegra jóla.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Oktber 2024 »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31