Félag eldri borgara: Starfið fram á vor
Allir viðburðir Félags eldri borgara í Dalabyggð og Reykhólahreppi eru opnir öllu fólki á félagssvæðinu sem náð hefur 60 ára aldri, sama hvort það er í félaginu eða ekki. Dagskrá félagsstarfsins fram á vor er birt hér fyrir neðan. Starfsemin fer að mestu leyti fram í Búðardal en að hluta til í Króksfjarðarnesi. Liðlega áratugur er frá því að félagið var stofnað. Félagsmenn eru 63 um þessar mundir, þar af 51 í Dalabyggð og 12 í Reykhólahreppi. Áréttað skal, að aldurstakmark vegna inntöku í félagið er aðeins 60 ár.
Þrúður Kristjánsdóttir í Búðardal er formaður félagsins, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir í Mýrartungu II í Reykhólasveit er ritari, Björk Bárðardóttir á Reykhólum gjaldkeri og Guðbrandur Þórðarson í Búðardal meðstjórnandi. Varamenn í stjórn eru Guðrún Björnsdóttir og Ragnar Ólafsson. Til að fá nánari upplýsingar um starfsemina en hér koma fram er hægt að hafa samband við Þrúði (434 1124) eða aðra stjórnarmenn.
Félag eldri borgara í Dalabyggð og Reykhólahreppi er í Landssambandi eldri borgara. Formaður sambandsins er áðurnefnd Jóna Valgerður Kristjánsdóttir í Mýrartungu II, ritari félagsins, en Þrúður formaður félagsins og Jóna Valgerður eru systur.
Starfsemi félagsins fer fram í Rauðakrosshúsinu í Búðardal nema annað sé tekið fram. Fastir liðir:
Mánudagar
Gönguferð kl.10.30.
Kóræfing kl.17 í Tónlistarskólanum nema þegar kirkjukórinn er með æfingu.
Þriðjudagar
Samvera kl. 10.30-11.30.
Sund á Laugum kl.15.30-17. Safnað í bíla og farið frá Rauðakrosshúsinu kl. 15.15.
Miðvikudagar
Frí afnot af tækjasal Umf. Ólafs pá kl. 11.45-12.45 í boði ungmennafélagsins. Lykill hjá K.M.
Boccia í Dalabúð kl. 17.
Fimmtudagar
Samvera í Rauðakrosshúsinu eða í Króksfjarðarnesi kl. 13.30-16 (nánar hér fyrir neðan).
Föstudagar
Gönguferð kl.10.30.
Samverustundirnar á fimmtudögum fram á vorið verða með þessum hætti:
7. feb. Fundur - „Útsvar“
14. feb. Félagsvist
21. feb. Dagskrá í umsjá félaga
28. feb. Bingó, Króksfjarðarnes
7. mars Dagskrá í umsjá félaga
14. mars Dagskrá í umsjá félaga
21. mars Aðalfundur, Króksfjarðarnes
4. apríl Dagskrá í umsjá félaga
11. apríl Bingó
18. apríl Lokahátíð
25. apríl Fyrirhuguð heimsókn í Barmahlíð á Reykhólum
Kaffi og meðlæti á samverustundum kostar 300 krónur. Hvert bingóspjald kostar 500 krónur.
Þegar farið er í Reykhólasveit er safnað í bíla kl.12.45 og farið kl.13 frá Rauðakrosshúsinu.
Eins og áður sagði er starfsemi Félags eldri borgara í Dalabyggð og Reykhólahreppi opin öllum 60 ára og eldri. Engin kvöð er um að taka þátt í öllu. Maður er manns gaman og fengur að því að fá fleira fólk í hópinn, segir í tilkynningu frá stjórn félagsins.