9. mars 2010 |
Félagsvist Vinafélags Grettislaugar á fimmtudagskvöld
Vinafélag Grettislaugar á Reykhólum efnir til félagsvistar í húsnæði Hlunnindasýningarinnar við Maríutröð á fimmtudag, 11. mars. Spilamennskan hefst kl. 20 og miðaverðið er 600 krónur. Allir eru velkomnir. Ætlunin var að halda vistina fyrir hálfum mánuði en þá varð að fresta henni vegna veðurs og færðar. Nú horfir hins vegar langtum betur í þeim efnum.
Hugmyndin að Vinafélagi Grettislaugar kviknaði í fyrravor þegar íbúar hreppsins drifu sig í sund eftir árlega hreingerningu. Sundlaugin var þá hálffull af vatni og yngsta kynslóðin skemmti sér konunglega. Þá kviknuðu umræður um að gaman væri að vera með buslulaug líka. Ákveðið var að stofna félag sem hefði það markmið að safna fyrir slíkri laug.
Á þeim tíma sem liðinn er frá stofnun félagsins hefur það staðið fyrir fjáröflun af ýmsu tagi.