Tenglar

14. júlí 2014 | vefstjori@reykholar.is

Fengu hlýjar móttökur í Reykhólasveit

Við komuna til Reykhóla: F.v. Ingibjörg Snorradóttir, Kristrún Björnsdóttir, Snorri Már Snorrason, Ingibjörg Birna Erlingsdóttir sveitarstjóri, Bergþór Jóhannsson og Svanhildur Sigurðardóttir í Sjávarsmiðjunni ásamt tveimur ungum dömum.
Við komuna til Reykhóla: F.v. Ingibjörg Snorradóttir, Kristrún Björnsdóttir, Snorri Már Snorrason, Ingibjörg Birna Erlingsdóttir sveitarstjóri, Bergþór Jóhannsson og Svanhildur Sigurðardóttir í Sjávarsmiðjunni ásamt tveimur ungum dömum.
1 af 5

Snorri Már Snorrason frá Ísafirði er um það bil hálfnaður að hjóla Vestfjarðahringinn, nærri 800 kílómetra vegalengd. Hann er núna í Reykhólasveitinni ásamt Kristrúnu konu sinni og Ingibjörgu systur sinni. Ekkert er hjólað í dag heldur var ákveðið í gær án fyrirvara að nota daginn í dag til að skoða sig um í Reykhólasveit. Upphaflega var ekki ætlunin að víkja af þjóðvegi 60 og fara út á Reykhóla en það breyttist og segjast ferðalangarnir ekki sjá eftir því.

 

Fyrir áratug greindist Snorri með Parkinsonsveiki en þrátt fyrir að vera metinn 75% öryrki hefur hann viðhaldið starfsþreki sínu með hreyfingu og er í fullu starfi sem þróunar- og gæðastjóri hjá Prentsmiðjunni Odda. Langt er síðan Snorri fluttist suður, en foreldrar hans og systkini eru búsett á Ísafirði. Fyrir tveimur árum hjólaði hann stóra hringinn í kringum landið, en þá varð Vestfjarðakjálkinn eftir.

 

Þetta gerir Snorri Már „til að sýna bæði sjálfum mér og öðrum hvað hægt er að gera þó að maður sé með Parkinson, lífið er langt frá því að vera búið þó að sá dómur sé kominn,“ segir hann.

 

„Ekki síður vil ég sýna aðstandendum fólks með þennan sjúkdóm, að það er alveg óhætt að láta okkur reyna aðeins á okkur. Ég er svo heppinn að konan mín leyfir mér þetta, þó að hún hafi nú haft einhverjar áhyggjur á köflum.“ Snorri kveðst hafa tröllatrú á því að hreyfing hjálpi til við að halda heilsunni, ekki eigi bara að bíða í sófanum eftir að lyfin virki heldur gera eitthvað sjálfur.

 

Aðspurður hvernig það hafi verið að hjóla upp hálsana í Gufudalssveit, Ódrjúgsháls og Hjallaháls, segir Snorri að það hafi verið mikið puð. „Þeir eru mjög erfiðir,“ segir hann, og bætir við, að meðan á þeirri miklu áraun stóð hafi hann líklega verið eini maðurinn sem hlakkaði til að fara að vinna aftur eftir sumarfrí.

 

„En þetta er mjög skemmtilegt. Ég hjólaði kringum landið í hitteðfyrra, en ég vil meina að Vestfjarðahringurinn sé þrisvar sinnum erfiðari og margfalt skemmtilegri. Landslagið er svo fallegt og svo margt sem kemur á óvart. Ég sem gamall Ísfirðingur og Vestfirðingur er núna að sjá svo ótalmargt með því að fara svona rólega yfir, þá sér maður svo margt nýtt.“

 

Kristrún Björnsdóttir eiginkona Snorra hefur fylgt honum á bíl alla leiðina hingað til, en núna ætlar hún að skreppa til Reykjavíkur og slást í förina á ný seinna í vikunni og fylgja manni sínum til Ísafjarðar. Ingibjörg systir Snorra, sem búsett er á Ísafirði, fylgdi honum fyrstu dagana og kom svo aftur í gær að vestan yfir Þorskafjarðarheiði og mun líka fylgja honum þangað til hringnum verður lokað á Ísafirði.

 

Snorri kom í fyrradag vestan af Barðaströnd og yfir Ódrjúgsháls niður í Djúpafjörð í Gufudalssveit, þar sem gist var í bændagistingunni í Djúpadal. Þar var að sjálfsögðu farið í sund í lauginni sem tilheyrir gistingunni. Í gær var svo hjólað út að Reykhólum, en fyrsti áfangi þeirrar leiðar var upp snarbrattar brekkurnar á malar- og leirdrulluvegi upp á Hjallaháls, þar sem vegurinn liggur hæst í 336 metra hæð. Þegar kom niður í Þorskafjörð varð leiðin ólíkt greiðari og vegurinn með bundnu slitlagi. Boðið var til veitinga á Kollabúðum í botni Þorskafjarðar og síðan hjólaði Bergþór Jóhannsson á Kollabúðum, þaulvanur hjólreiðamaður, sem reyndar er búsettur í Hafnarfirði, með Snorra út á Reykhóla.

 

Þegar komið var á Reykhóla var farið beint í þaraböðin í boði Svönu í Sjávarsmiðjunni til að láta líða úr sér. Þar tók Ingibjörg Birna Erlingsdóttir sveitarstjóri á móti ferðalöngunum og bauð þá velkomna. Eftir að fólk hafði notið þarabaðanna var farið í matsal Reykhólaskóla, þar sem boðið var til grillveislu. Verslunin Hólakaup á Reykhólum lagði til hráefnið en Hjalti Hafþórsson (eiginmaður Ingibjargar Birnu sveitarstjóra) annaðist matreiðsluna. Þau Snorri, Kristrún og Ingibjörg gistu síðan í bændagistingunni á Miðjanesi í Reykhólasveit og ætla að vera þar aftur í nótt. Á morgun verður farið úr Reykhólasveitinni yfir Þröskulda til Hólmavíkur og gist þar.

 

Enda þótt ferðin sé um það bil hálfnuð hvað vegalengd varðar er seinni hlutinn mun auðveldari. Lagt var af stað frá Silfurtorgi á Ísafirði á laugardag fyrir rúmri viku en áætlað er að hjóla síðasta áfangann núna á laugardaginn, 19. júlí. Hann hefst á Kambsnesinu milli Seyðisfjarðar og Álftafjarðar í Djúpi og ferðinni lýkur svo þar sem hún hófst – á Silfurtorginu á Ísafirði. Snorri hvetur sem flesta til að hjóla með honum innan af Kambsnesi til Ísafjarðar, eða að minnsta kosti einhvern spotta.

 

Fylgjast má með ferðinni á Facebooksíðunni Skemmtiferðin 2014, þar sem jafnan er settur inn fjöldi mynda.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31