„Fer ekki að beita mér gegn því“
Þórður Jónsson í Árbæ segir að vegur yfir mynni Þorskafjarðar og yfir á Skálanes myndi skerða jörðina verulega til búskapar. Hún myndi klofna í tvennt og ræktunarland eyðileggjast. „Ég fer þó ekki að beita mér gegn því ef það yrði niðurstaðan“, segir hann í samtali við Morgunblaðið í dag. Þetta á við ef vegurinn samkvæmt A-leið yrði lagður framhjá Reykhólum og út Reykjanesið. Ef vegurinn yrði hins vegar lagður við sunnanverðan Þorskafjörð myndi hann aðallega hafa áhrif á búskap á Hofsstöðum.
„Mér finnst að sveitarstjórnirnar þurfi að koma sér niður á ákveðna leið og standa einhuga á bak við hana. Annars verður þessu ekki komið fram“, segir Þórður. Hann segir að flestir vilji fara um Teigsskóg. Sjálfur telur hann það varla raunhæft á næstu árum. „Mér finnst að leggja ætti áherslu á að fara í þveranir á Gufufirði og Djúpafirði, sem sæmileg sátt hefur verið um.“
Í stað þess að fara um Teigsskóg verði lagður vegur út með Djúpafirði að sunnanverðu og upp á Hjallaháls. Þetta sé aðeins um fjögurra kílómetra viðbót og myndi taka verstu brekkurnar af hálsinum. „Það yrði þá mál framtíðarinnar hvort berjast ætti fyrir jarðgöngum eða fara með veginn um Teigsskóg“, segir Þórður í Árbæ.
Þetta kemur fram í ítarlegri umfjöllun um vegamál í Reykhólahreppi í Morgunblaðinu í dag.
Sig.Torfi, mivikudagur 05 oktber kl: 23:31
Alveg hjartanlega sammála Þórði; „Mér finnst að sveitarstjórnirnar þurfi að koma sér niður á ákveðna leið og standa einhuga á bak við hana"