Tenglar

29. nóvember 2008 |

Ferðafólk almennt ánægt en ýmislegt má bæta

Með Eyjasiglingu á Reykhólum út í Breiðafjarðareyjar.
Með Eyjasiglingu á Reykhólum út í Breiðafjarðareyjar.

Birt hefur verið skýrsla um niðurstöður könnunar sem gerð var meðal ferðafólks sem lagði leið sína um Vestfjarðakjálkann á nýliðnu sumri. Lagður var fyrir ferðamenn spurningalisti þar sem meðal annars var spurt um ástæður fyrir komunni vestur, hvernig upplýsinga var aflað og hvernig þær nýttust, um þjónustu á Vestfjörðum sem ferðafólk nýtti sér og hversu ánægt það var með hana, sem og ánægju með ferðina í heild. Könnunin gefur mynd af því hverju ferðamenn hafa helst áhuga á að kynnast eða upplifa á ferð sinni um Vestfirði og hvar þeir eru líklegir til að leita sér upplýsinga. Þá er reynt að leiða í ljós hvaða þættir hafa helst áhrif á ánægju ferðafólksins.

 

Niðurstöðurnar gefa til kynna að „náttúruferðamenn" séu öflugasti hópurinn á Vestfjörðum og jafnframt að þeir ferðamenn sem hingað koma séu almennt ánægðir með ferðina. Lengi má þó bæta og gefa niðurstöðurnar vísbendingar um að enn megi bæta aðgengi ferðamanna að upplýsingum og afþreyingarmöguleikum á svæðinu. Vonast er til að nýta megi niðurstöður könnunarinnar til að greina styrkleika Vestfjarða sem ferðamannasvæðis, skilgreina möguleika í kynningu svæðisins og greina frekari möguleika á uppbygginu afþreyingar og þjónustu fyrir ferðamenn.

 

Rannsóknin er samstarfsverkefni Rannsókna- og fræðaseturs Háskóla Íslands á Vestfjörðum og Markaðsstofu Vestfjarða og styrkt af Vaxtarsamningi Vestfjarða. Vonast er til að rannsókn þessi geti nýst þeim er standa að ferðaþjónustu til frekari framþróunar og uppbyggingar greinarinnar á Vestfjörðum.

 

Hér á eftir eru nokkrar stiklur úr niðurstöðum skýrslunnar, en hana má lesa í heild á pdf-formi gegnum tengil hér neðst.

 

Liðlega 85% innlendra ferðamanna segjast hafa komið til Vestfjarða áður og 11% erlendra. Alls hafa 33,5% erlendu ferðamannanna komið til Íslands áður. Er það ekki í samræmi við þá hugmynd að erlendir ferðamenn fari ekki á Vestfirði fyrr en í annarri eða þriðju heimsókn sinni til Íslands.

 

Áhugi erlendra ferðamanna virðist helst liggja í því sem má tengja náttúru og umhverfi á einhvern hátt, svo sem umhverfisvernd og útivist, sem og ljósmyndun, sjálfbærri ferðamennsku og fuglaskoðun.

 

Spurt var hvaða upplýsingaveitur svarendur töldu hafa nýst best. Óháð þjóðerni nefndu flestir bæklinga eða handbækur. Margir innlendir ferðamenn töldu þó upplýsingar frá vinum og ættingjum hafa reynst best og margir erlendir ferðamenn nefndu internetið. Aðrar upplýsingaveitur voru lítið nefndar. Athyglisvert er að þrátt fyrir töluvert stórt hlutfall þeirra sem segjast nota internetið til að afla upplýsinga áður en farið er til Vestfjarða, eða 45,4%, telja aðeins 17,7% svarenda internetið hafa reynst best.

 

Spurt var hvernig ferðamönnunum gekk að finna upplýsingar um Vestfirði, annars vegar áður en komið var á Vestfirði og hins vegar eftir að komið var á Vestfirði. Athygli vekur að yfir 10% innlendra ferðamanna fannst mjög eða nokkuð erfitt að finna upplýsingar eftir að komið var á svæðið og einungis 72,5% erlendra ferðamanna fannst auðvelt að finna upplýsingar eftir að komið var á svæðið.

 

Langflestir svarenda töldu upplifun sína vera í samræmi við þær upplýsingar sem safnað var. Má því ætla að upplýsingarnar sem svarendur höfðu aflað sér áður en haldið var af stað væru nokkuð réttar.

 

Helstu áfangastaðir erlendra ferðamanna voru á suðurfjörðum Vestfjarða, ef undan er skilinn Ísafjörður og Hólmavík. Yfir 50% erlendra ferðamanna heimsóttu Ísafjörð, Brjánslæk, Dynjanda, Látrabjarg, Patreksfjörð og Hólmavík. Innlendir ferðamenn fóru víðar um Vestfirði og heimsóttu fleiri staði á norðanverðum Vestfjörðum en erlendir ferðamenn. Helstu viðkomustaðir innlendra ferðamanna voru í þessari röð: Ísafjörður, Patreksfjörður, Þingeyri, Súðavík, Bíldudalur, Bjarkalundur og Bolungarvík.

 

Þegar ferðamynstur er skoðað virðast ferðamenn gjarnan fara einn af þremur hringjum: Sunnanverðir Vestfirðir eingöngu, Vestfjarðahringurinn (Vestfirðir allir fyrir utan Hornstrandir) og Tröllatunguhringur (Borðeyri, Drangsnes, Hólmavík, Bjarkalundur).

 

Áberandi munur er á fjölda innlendra ferðamanna og erlendra á nokkrum áfangastöðum, t.d. í Bjarkalundi og Ketildölum, að því leyti hversu miklu færri útlendingarnir eru. Ástæða fyrir því getur verið sú, að erlendir ferðamenn þekki síður þessa staði. Í Bjarkalund komu 11,2% erlendra ferðamanna á ferð um Vestfirði en 51,5% innlendra ferðamanna. Til samanburðar má geta þess, að Reykhóla heimsóttu 8,6% erlendra ferðamanna en 21,5% innlendra ferðamanna. Litlu færri erlendir ferðamenn komu því á Reykhóla en í Bjarkalund en fjöldi innlendra ferðamanna sem komu á Reykhóla er langt innan við helmingur þess fjölda sem kom í Bjarkalund.

 

Langflestir innlendu ferðamannanna, eða 88,1%, ferðuðust á eigin bíl. Um 20% erlendra ferðamanna reyndust vera á eigin bíl en stærstur hluti þeirra eða 50,2% var á bílaleigubílum. Þá nýttu 14,3% erlendra ferðamanna áætlunarferðir.

 

Ferðamennirnir voru beðnir um að svara því, hvaða afþreyingu eða þjónustu þeir hefðu nýtt sér eða ætluðu að nýta sér á ferð sinni á Vestfjörðum. Gönguferðir eru vinsælasta afþreying ferðamanna á Vestfjörðum og um 70% erlendra ferðamanna fara annað hvort í stutta eða langa gönguferð eða hvort tveggja. Þá var algengt að erlendir ferðamenn færu í fuglaskoðun (54%) og í sund (38%). Ekki kemur fram hvort þeir nýttu sér skipulagðar fuglaskoðunarferðir eða þjónustu leiðsögumanna. Nokkru færri innlendir ferðamann fóru í gönguferðir eða tæp 50%. Sú þjónusta eða afþreying sem innlendir ferðamenn nýttu hvað helst voru sundlaugar (64%), matvöruverslanir (57%) og söfn eða sýningar (55%).

 

Orðspor og meðmæli fyrri ferðamanna skipta miklu við að skapa ímynd ferðamannastaða og hafa mjög mikil áhrif á aðsóknina. Kannað var hversu líklegir ferðamennirnir eru til að koma aftur til Vestfjarða og hversu líklegir þeir eru til að mæla með Vestfjörðum sem ferðamannasvæði, auk þess sem í skýrslunni er birt einkunnargjöf vegna þjónustu og hvort ferðamönnunum fannst vanta afþreyingu á svæðinu. Nær allir innlendu ferðamennirnir höfðu áhuga á að koma aftur á svæðið, eða 99,2%. Heldur færri erlendir ferðamenn vildu koma aftur til Vestfjarða eða 88,7%. Oft mátti sjá þá athugasemd við svörin, að viðkomandi vildi gjarnan koma aftur en gæti það ekki og geta ástæður fyrir því verið margar.

 

Langflestir sem svöruðu munu mæla með Vestfjörðum sem ferðamannasvæði, og þar af nokkru fleiri innlendir ferðamenn en erlendir, eða 97% á móti tæpum 88%. Af heildinni svöruðu 12,4% annað hvort „nei" eða „kannski". Af þeim sem svöruðu „kannski" nefndu margir tímaþáttinn, þ.e. að viðkomandi myndi mæla með Vestfjörðum ef hann væri öruggur um að sá sem hann væri að ráðleggja hefði nægan tíma til að njóta ferðarinnar um svæðið.

 

Þeir ferðamenn sem höfðu nýtt sér þjónustu af ýmsu tagi voru beðnir að gefa einkunn á skalanum 0-10, þar sem 0 var lægsta einkunn sem þjónustuþáttur gat fengið en 10 hæsta einkunn. Hjá erlendum ferðamönnum fengu upplýsingamiðstöðvar, gistiheimili, bændagisting og söfn eða sýningar hæstu einkunnirnar. Upplýsingamiðstöðvar fengu meðaleinkunnina 8,23 hjá erlendu ferðamönnunum en alls svöruðu 158 erlendir ferðamenn þeirri spurningu. Sú þjónusta sem fékk aftur á móti lægstu einkunn hjá sama hópi voru skyndibitastaðir, sem fengu einkunnina 6,19. Skal þó geta þess að aðeins 24,4% erlendra ferðamanna gáfu skyndibitastöðum einkunn. Hjá innlendum ferðamönnum fékk bændagisting hæstu einkunn eða 8,64, en þeirri spurningu svöruðu aðeins 11. Lægsta einkunn fengu vegir og samgöngur, en það er í samræmi við eldri kannanir. Sú spurning fékk mesta svörun og svöruðu alls 66% innlendu ferðamanna þeirri spurningu og 81% þeirra erlendu. Mestur munur var á svörum innlendra og erlendra ferðamanna við þessari spurningu. Innlendir ferðamenn gáfu vegum og samgöngum einkunnina 5,53 en þeir erlendu gáfu einkunnina 6,83.

 

Spurt var hvort viðkomandi teldi að meiri afþreyingu vanti á Vestfjörðum, og ef svo væri, hvað vantaði helst. Flestir svarendur svöruðu spurningunni neitandi. Sá hluti sem svaraði játandi kom í flestum tilfellum með athugasemdir um hvað þeir teldu vanta og var langalgengasta ábendingin sú að fleiri skipulagðar gönguferðir vantaði og betur merktar gönguleiðir. Aðrir afþreyingarmöguleikar sem þarna voru nefndir voru kajakferðir og kajakleigur, hringflug um svæðið, flúðasiglingar, hvalaskoðun og betri og fleiri sundlaugar. Nokkuð var um að þátttakendur nýttu þessa spurningu til að benda á ýmislegt sem þeir telja að vanti en flokkast frekar undir almenna þjónustu en afþreyingu, til að mynda fleiri áætlunarferðir á rútum og bátum og lengri afgreiðslutíma á flestum þeim þjónustuþáttum sem í boði eru.

_______________________________

 

Höfundar skýrslunnar eru Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Alda Davíðsdóttir, Íris Hrund Halldórsdóttir og Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir. Upplýsingamiðstöðin á Ísafirði, Vesturferðir á Ísafirði, Minjasafn Egils Ólafssonar á Hnjóti, Flakkarinn á Brjánslæk, Strandagaldur á Hólmavík, Hlunnindasafnið á Reykhólum, Veitingastaðurinn Völlurinn við Patreksfjörð, Safn Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri og Upplýsingamiðstöðin á Hólmavík aðstoðuðu við framkvæmd könnunarinnar, eftir því sem fram kemur í niðurlagsorðum skýrslunnar.

 

Þeir sem vinna að ferðamálum á Vestfjarðakjálkanum - og aðrir sem áhuga hafa á þessum málum - eru hvattir til að kynna sér og lesa skýrsluna í heild enda hefur hér aðeins verið tæpt á nokkrum atriðum. Tengill á hana er hér fyrir neðan og jafnframt á spurningalistann sjálfan til glöggvunar. Skjöl þessi eru á vef Rannsókna- og fræðaseturs Háskóla Íslands á Vestfjörðum.

_______________________________

 

Skýrslan í heild (pdf-skjal)

Spurningalistinn (pdf-skjal)

Rannsókna- og fræðasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum (vefsetur)

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31