Tenglar

18. desember 2008 |

Ferðamálasamtökin mótmæla áformuðum niðurskurði

Ferðamálasamtök Vestfjarða (FMSV) hafa sent frá sér ályktanir þar sem mótmælt er niðurskurði í fjárlagavinnunni sem nú stendur yfir og beinist að málefnum ferðaþjónustu og Vestfjarðakjálkans. „Það er áberandi niðurskurður til verkefna í fjórðungnum sem hefur verið haft mikið fyrir að skapa undanfarin misseri", segir á fréttavefnum strandir.is. „Á Vestfjörðum urðu íbúar aldrei varir við þensluna en þurftu engu að síður að taka á sig niðurskurð þegar hann var boðaður til að slá á hana fyrir um ári síðan og svo aftur núna þegar góðærið svokallaða er frá."

 

Ályktanirnar samtakanna eru hér fyrir neðan. Þar eru þingmenn Norðvesturkjördæmis eggjaðir til að sinna skyldu sinni gagnvart íbúum fjórðungsins.

 

__________________________________

 

Ályktun til þingmanna NV-kjördæmis frá Ferðamálasamtökum Vestfjarða vegna tillagna í fjárlagafrumvarpi að leggja niður Hornstrandastofu og Látrabjargsstofu

 

Ferðamálasamtök Vestfjarða beina þeim sjálfsögðu tilmælum til allra þingmanna kjördæmisins að halda vörð um þá uppbyggingu í ferðaþjónustu og náttúrurannsóknum sem ákveðin hefur verið með stofnun Hornstrandastofu og Látrabjargsstofu. Ferðamálasamtök Vestfjarða átelja harðlega þær tillögur sem koma fram í fjárlagafrumvarpi að skerða atvinnuuppbyggingu fjórðungsins og þeirri nýsköpun sem felast í þeim verkefnum.

 

Ferðamálasamtök Vestfjarða geta ekki litið öðruvísi á þessar tillögur en sem fullkomið skilningsleysi gagnvart málefnum fjórðungsins og hreina og klára móðgun gagnvart íbúum hans. Hornstrandir og Látrabjarg eru þeir staðir á Vestfjörðum sem hafa hvað mesta sérstöðu á svæðinu og með þessari tillögu er beinlínis ráðist að nýsköpun og uppbyggingu ferðaþjónustu í fjórðungnum.

 

Atvinnulíf hefur barist í bökkum mörg undanfarin ár á Vestfjörðum með tilheyrandi fólksfækkun. Ferðamálasamtök Vestfjarða álíta það skyldu stjórnvalda að sjá til þess að í engu verði hróflað af því sem hefur áunnist undanfarin misseri, með mikilli eljusemi, hugmyndaríki og viðleitni fyrirtækja og íbúa á Vestfjörðum til að skapa ný atvinnutækifæri.

 

Það er þörf á því að þið þingmenn fjórðungsins sýnið í verki raunverulegan vilja ykkar til að standa vörð um það sem áunnist hefur undanfarin misseri og gæta þar með hagsmuna íbúa á Vestfjörðum.

 

- Stjórn Ferðamálasamtaka Vestfjarða

 

__________________________________

 

Ályktun til þingmanna Norðurlandskjördæmis vestra vegna Fræðastofnana HÍ á landsbyggðinni

 

Stjórn Ferðamálasamtaka Vestfjarða beinir þeim sjálfsögðu tilmælum til allra þingmanna kjördæmisins að halda vörð um Fræðasetur Háskóla Íslands á landsbyggðinni.

 

Ferðamálasamtök Vestfjarða átelja harðlega þær tillögur sem koma fram í fjárlagafrumvarpi, að skerða atvinnuuppbyggingu fjórðungsins og þá nýsköpun sem felst í þeim verkefnum sem fræðasetrin inna af hendi fyrir atvinnuvegina. Ferðamálasamtök Vestfjarða geta ekki litið öðruvísi á þessar tillögur en sem fullkomið skilningsleysi gagnvart málefnum fjórðungsins og hreina og klára móðgun gagnvart íbúum hans. Stofnanir sem þessar hafa mikil margfeldisáhrif fyrir þau svæði sem þær starfa á. Með því að leggja þær niður er að okkar mati unnið markvisst að því að koma í veg fyrir það að sú jákvæða þróun sem þó hefur átt sér stað á Vestfjörðum við uppbyggingu fjölbreyttara atvinnulífs muni skila tilætluðum árangri. Fjármunum og mannauði er kastað á glæ með þessari aðgerð og það sem alvarlegra er að þau tengsl sem komið hefur verið á milli menntastofnana erlendis sem hérlendis getur orðið erfitt að treysta á ný. Þann 28. nóvember sl. ályktaði stjórn FMSV svohljóðandi um gagnsemi Rannsóknarseturs HÍ á Vestfjörðum þar setrinu var hrósað fyrir að styrkja verulega við ferðaþjónustu á Vestfjörðum með starfsemi sinni:

 

„Fundur stjórnar Ferðamálasamtaka Vestfjarða á Ísafirði föstudaginn 28. nóvember 2008 fagnar nýútkominni skýrslu setursins um rannsókn á ferðamennsku á Vestfjörðum sumarið 2008. FMSV býður fram krafta sína til frekara samstarfs í framtíðinni. Góðar og vandaðar ferðakannanir líkt og sú sem fræðasetrið vann í sumar og haust styrkir verulega við atvinnugreinina og eflir þarfa umræðu um hana. Stjórn Ferðamálasamtaka Vestfjarða vill hvetja rannsóknasetrið til frekari dáða og býður fram krafta sína til að halda áfram frekari rannsóknum í ferðaþjónustu á Vestfjörðum."

 

Atvinnulíf hefur barist í bökkum mörg undanfarin ár á Vestfjörðum með tilheyrandi fólksfækkun og Ferðamálasamtök Vestfjarða álíta það skyldu stjórnvalda að sjá til þess að í engu verði hróflað við því sem þó áunnist hefur undanfarin misseri. Það hefur tekist með mikilli eljusemi, hugmyndaríki og viðleitni fyrirtækja og íbúa á Vestfjörðum öllum til að skapa ný atvinnutækifæri. Það er þörf á því að þið þingmenn fjórðungsins sýnið í verki raunverulegan vilja ykkar til að standa vörð um það sem áunnist hefur undanfarin misseri.

 

- Stjórn Ferðamálasamtaka Vestfjarða

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30