Ferðamálastofa styrkir göngustígagerð
Ferðamálastofa hefur ákveðið að veita Reykhólahreppi styrk að fjárhæð kr. 400 þúsund til stígagerðar og uppsetningar fræðsluskilta við Langavatn neðan við Reykhólaþorp og á svæðinu þar í grennd. Styrkurinn er veittur af lið sem nefnist „Smærri styrkir til úrbóta á ferðamannastöðum 2012“. Í þeim flokki voru veittir alls 24 styrkir á bilinu kr. 100-500 þúsund til verkefna um land allt. Á þessu svæði eru göngustígar fyrir en þörf er á að bæta þá mikið og leggja mun víðar.
Gert er ráð fyrir því að bekkjum verði komið fyrir við stígana og gerðar verði göngubrýr eftir þörfum. Upplýsingaskilti verði við Einireyki, Grettistak, fuglaskoðunarskýlið við Langavatn, Lómatjörn og víðar. Jafnframt verði komið upp fróðleiksskiltum um sjaldgæfar jurtir sem þarna er að finna, svo sem naðurtungu, sem er mjög fágæt hérlendis, en kjörlendi hennar er í volgum jarðvegi.
Gönguleiðir á þessu svæði eru á aðalskipulagi Reykhólahrepps og á fjárhagsáætlun. Stefnt er að því að ungmennin í Vinnuskóla Reykhólahrepps vinni að þessu verkefni eins og kostur er.