Tenglar

3. maí 2008 |

Ferðum Breiðafjarðarferjunnar Baldurs fækkað

Breiðafjarðarferjan Baldur. (bb.is)
Breiðafjarðarferjan Baldur. (bb.is)

„Ég fagna því að ráðherra sé tilbúinn að endurskoða stuðninginn við ferjusiglingarnar. Það er fólkinu á sunnanverðum Vestfjörðum sem myndi bregða sérstaklega ef þær legðust af. Það fer ekki framhjá okkur mikil óánægja fólks á Vestfjörðum með að áframhaldandi siglingar Baldurs hafi ekki verið tryggðar þangað til samgöngubætur verða komnar í gagnið," segir Pétur Ágústsson framkvæmdastjóri Sæferða í Stykkishólmi í samtali við Skessuhorn. Sæferðir hafa ákveðið að fækka ferðum Baldurs í sumar. Ferðum verður fækkað úr tveimur í eina fyrstu tíu dagana í júní og síðustu tíu dagana í ágúst.

 

Kristján Möller samgönguráðherra hefur lýst því yfir að stuðningur við ferjusiglingar yfir Breiðafjörð verði endurskoðaður við endurskoðun samgönguáætlunar í haust. Þá verði tekið tillit til þeirrar seinkunar sem orðið hefur á samgöngubótum á Vestfjörðum og ekki er sýnilegt að verði að veruleika á allra næstu misserum.

 

„Þegar samningurinn var gerður á árinu 2005 og þessar skerðingar settar inn, var ætlunin hjá okkur að halda uppi fullri áætlun út tímabilið, til ársins 2010. Síðan hefur þróunin orðið slík, bæði með gríðarlegri hækkun olíuverðs og nú gengisfalli krónunnar, að við sjáum okkur nauðbeygð til að draga úr ferðunum og fækka þeim ferðum sem við fáum ekki greitt fyrir. Nú er þessi skerðing á greiðslum frá ríkinu farin að telja verulega. Ef horft er til næsta árs lítur þetta enn verr út og á árinu 2010 myndum við að óbreyttu leggja Baldri yfir veturinn og sinna ferðum til Flateyjar með minni bát," segir Pétur Ágústsson hjá Sæferðum í samtali við Skessuhorn.

 

Skerðing ríkisins á stuðningnum byrjaði á síðasta ári en þá var ferðum fækkað um 60. Nú í ár mun ferðum Baldurs yfir Breiðafjörð fækka um 40 frá liðnu sumri. Á næsta sumri myndi þeim að óbreyttu líklega fækka um 100 og yrði því fækkun ferða alls vera orðin 200. Í peningum talið var skerðingin um 17 milljónir síðasta sumar og í sumar verður hún tæpar 14 milljónir, þannig að alls er skerðing orðin um 30 milljónir króna.

 

Félag Vinstri grænna í Stykkishólmi hefur skorað á Kristján L. Möller samgönguráðherra að ganga nú þegar til samninga við Sæferðir vegna ferða Baldurs yfir Breiðafjörð. Í áskoruninni segir að grípa þurfi strax til aðgerða til að tryggja óbreytta þjónustu ferjunnar. Hún sé gríðarlega mikilvæg fyrir vöru- og fólksflutninga milli Vestfjarða og Snæfellsness.

 

Skessuhorn

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31