Tenglar

10. mars 2012 |

Fetar í spor pabbans - með óbeinum hætti þó

Brynja Hjaltadóttir.
Brynja Hjaltadóttir.
1 af 5

Ung kona með náin tengsl við Reykhóla, Brynja Sif Hjaltadóttir, lauk á síðasta ári diploma-prófi í innanhússhönnun frá IED (Istituto Europeo di Design) í Mílanó. Lokaverkefni hennar og þriggja námsfélaga hennar (Project Orama) var útlit og innrétting lúxussnekkju í samvinnu við fyrirtækið Filippetti Yacht. Verkefnið fékk mjög góða dóma og var valið til að fara á snekkjusýninguna Festival de la Plaisance de Cannes í Frakklandi á liðnu hausti.

 

Auk Brynju unnu að þessu verkefni tvær ungar konur frá Grikklandi og Rússlandi og Íslendingurinn Sindri Snær Sighvatsson, nemandi í iðnhönnun.

 

Hér fylgja nokkrar myndir af þessu hugverki Brynju og félaga hennar. Miklu fleiri er að finna á stórglæsilegum vef hennar (sjá hér neðst) þar sem líka kennir fleiri grasa.

 

Brynja á ekki langt að sækja áhugann á bátahönnun - ef svo má segja. Hún er dóttir Hjalta Hafþórssonar á Reykhólum, sem er einn af frumkvöðlum Bátasafns Breiðafjarðar og undirbýr um þessar mundir smíði Vatnsdalsbátsins eins og hér verður greint frá innan tíðar. Að vísu er nokkur stærðarmunur á þeim báti og snekkjunni hennar Brynju - og líka nokkur aldursmunur á snekkjunni og hinum upprunalega Vatnsdalsbáti, að ekki sé meira sagt.

 

Brynja var um tíma á Reykhólum í fríinu sínu á liðnu sumri, var hjá föður sínum og eiginkonu hans, Ingu Birnu sveitarstjóra, og vann í Barmahlíð. Hún er 25 ára, fædd á Siglufirði en ólst að mestu upp í Reykjavík með móður sinni og yngri systur.

 

„Ég hef alla tíð haft mikinn áhuga á alls kyns listsköpun, teiknaði mikið sem barn, og framan af átti föndur og alls konar sköpun hug minn allan. Þegar ég var fjórtán ára flutti ég í Hvalfjarðarsveitina til pabba og Ingu þar sem ég kláraði grunnskólann.“

 

Eftir það lá leið Brynju í Iðnskólann í Hafnarfirði þar sem hún stundaði hönnunarnám og listnám í tvö ár. „Með skólanum vann ég meðal annars hjá ART Sérsmíði, fyrirtæki í eigu pabba, og fékk fyrst áhuga á innanhúshönnun þegar við tókum íbúð í eigu Hvalfjarðarsveitar í gegn sumarið 2006,“ segir Brynja.

 

„Einn daginn kom kona frá Lingó, fyrirtæki sem hjálpar fólki gegnum allt umsóknarferlið þegar stefnt er á nám erlendis, og hélt kynningarfyrirlestur í iðnskólanum. Þar heyrði ég fyrst af IED. Mig langaði til að sækja um strax en þar sem ég hafði nánast eingöngu tekið verklega áfanga í iðnskólanum ákvað ég að taka eitt ár í tækniteiknun við Iðnskólann í Reykjavík áður en ég gerði það. Árið 2008 var ég svo komin til Mílanó á Ítalíu, þar sem ég tók þriggja ára nám í innanhússhönnun.

 

Skólinn leggur mikla áherslu á að verkefnin séu sem raunverulegust og fær því oft fyrirtæki til samvinnu, en í rauninni eru verkefnin samt „bara“ skólaverkefni. Það hefur gerst að fyrirtækin kaupi verkefni af skólanum en algengara er að þau taki verkefnin með sér á sýningar eða birti þau í tímaritum. Það er auðvitað æðisleg auglýsing fyrir nemendurna og mjög gott fyrir ferilskrána, en því miður getum við ekki gert neitt sjálf með verkefnin þar sem allt sem við hönnum er eign skólans.“

 

Eftir að Brynja útskrifaðist frá IED flutti hún með unnusta sínum Roberto til Stokkhólms. Þau kynntust á Ítalíu en hann er frá Stokkhólmi. Eins og ritháttur nafnsins bendir til er Roberto þó ekki sænskur að ætterni heldur af suðrænni uppruna.

 

„Roberto útskrifaðist sem iðnhönnuður ári á undan mér og tók mastersgráðu í bílahönnun við Scuola Politecnica di Design á meðan ég kláraði mitt nám. Núna er ég að læra sænskuna og vinn við lítil verkefni hér og þar til að byrja með. Roberto stofnaði fyrirtæki núna fyrir nokkrum vikum og ég hjálpa honum líka hér og þar.

 

Við höfum í rauninni engin plön fyrir framtíðina, þannig séð, okkur finnst miklu meira spennandi að lifa bara í núinu og sjá hvert tækifærin leiða okkur. Við fengum til dæmis tækifæri núna fyrir nokkrum vikum að sækja um skólastyrk til þess að fara til Shanghai og læra kínversku. Það verður mjög spennandi að sjá hvað kemur út úr því,“ segir Brynja Hjaltadóttir.

 

Hönnunarvefur Brynju Hjaltadóttur - skoðið og njótið!

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« September 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30