Tenglar

15. desember 2013 | vefstjori@reykholar.is

Fimm bestu lambhrútarnir komu frá Árbæ

Hundurinn Þorri og Þórður í Árbæ lesa á vigtina. Hvor er spenntari?
Hundurinn Þorri og Þórður í Árbæ lesa á vigtina. Hvor er spenntari?
1 af 8

Fimm stigahæstu lambhrútar í Austur- og Vestur-Barðastrandarsýslu núna í haust komu frá Árbæ í Reykhólasveit, samkvæmt skýrslu á vef Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML). Í annarri skýrslu koma fram hæstu búsmeðaltöl yfir bakvöðvaþykkt (ómvöðva) lambgimbra, þar sem skoðaðar voru 50 gimbrar eða fleiri í haust. Þar er miðað við ákveðna þykkt vöðvans og þess vegna eru búin sem talin eru upp mun fleiri.

 

Á þeim lista fyrir Austur- og Vestur-Barðastrandarsýslu er Árbær í þriðja sæti, á eftir Grænuhlíð og Fossi í Vestursýslunni, en í næstu sætum á eftir Árbæ koma þrjú býli í Reykhólahreppi þar sem mældist 26 mm þykkur bakvöðvi að meðaltali eða meira, þ.e. Kambur, Bakki og Reykhólar.

 

Vel má vera að lambhrútar frá Árbæ hafi líka raðað sér áfram niður listann yfir þá bestu í sýslunni vegna þess að í þeirri skýrslu sem hér var skoðuð er einungis er greint frá fimm þeim bestu í hverri sýslu. Með nokkurri yfirlegu í annarri skrá frá RML má ganga úr skugga um það (sjá tengil hér fyrir neðan).

 

Aðspurður hverju megi þakka þennan árangur, að vera með fimm bestu lambhrútana í Austur- og Vestur-Barðastrandarsýslu, segir Þórður Jónsson, bóndi í Árbæ: „Maður er nú búinn að stefna að þessu lengi, kjötgæðunum, að það séu meiri vöðvar og ekki mikil fita. Jafnframt vill maður halda í bestu eiginleikana að öðru leyti. Það má ekki einblína bara á einn og missa svo aðra í staðinn. Auðvitað horfir maður líka á mjólkurlagnina hjá ánum og frjósemina, jafnframt því að auka vöðvann.“

 

Þórður í Árbæ reynir að velja lífféð á hverju hausti með tilliti til þessa, bæði hrúta og gimbrar. „Ómskoðunin hjálpar manni líka og ráðunautarnir taka féð og þukla það.“

 

Þegar Þórður er spurður hvort þessi árangur hafi náðst með markvissum kynbótum, segir hann: „Já, ég held að það megi segja það. Líklega eru nú komin um fjörutíu ár síðan ég fór að skipta mér af sauðfjárbúskapnum hérna, það var árið 1973 sem ég tók við búinu.“

 

„Nei, það held ég nú ekki,“ segir Þórður þegar hann er spurður hvort Árbæjarféð hafi verið lengi í allra fremstu röð. „Kannski er farið að bera eitthvað meira á því núna seinustu árin. Það er nú víða gott fé, og betra,“ segir hann, og vill ekki gera mikið úr þessu.

 

Í Árbæ eru rúmlega 300 fjár á vetrarfóðrum. Árbæjarféð gengur mest á Reykjanesfjallinu og í hlíðinni inn með Þorskafirði og inn undir Kinnarstaði.

 

Bæirnir Árbær og Staður á Reykjanesi standa sinn hvoru megin Staðarár. Svo skammt er á milli, að séð utan af sjó er nánast eins og þarna sé aðeins eitt höfðingjasetur. Sjá mynd nr. 7 sem tekin er á leiðinni úr Staðarhöfn út í Breiðafjarðareyjar með Eyjasiglingu á Reykhólum.

 

Hæst stiguðu lambhrútar og hæstu búsmeðaltöl fyrir bakvöðvaþykkt gimbra 2013

 

Sjá einnig:

11.11.2012 Úrvalshrútar: Ljúfur frá Árbæ, Kroppur frá Bæ

13.04.2012 Þér hrútar

03.03.2011 Fimm býli fengu hrútaverðlaun

 

Athugasemdir

Eyvindur, mnudagur 16 desember kl: 12:45

Til hamingju með glæsilegan árangur. Veit til þess að fólk kemur víða að til að skoða og kaupa lambhrúta hjá þeim Árbæjarhjónum. Svo vonum við að lambhrútarnir standi sig jafnvel og mannhrútarnir hér í hrepp en eitthvað held ég að vöðva og fituhlutfallið sé ekki eins best verður á kosið.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31