Fimm dagar til jóla og Skyrgámur kominn
Jóladagatalið á Strandavefnum telur niður dagana til jóla með aðstoð brúðustráksins Tuma og barna í leikskólanum Lækjarbrekku á Hólmavík. Þessa dagana hleypur Tumi um fjöll og firnindi að leita uppi jólasveinana. Á vegi hans verða krakkar og þau taka tal saman um jólin og jólaundirbúninginn. Nýtt myndband kemur inn á vefinn á hverjum degi með jólasveini dagsins hverju sinni. Núna þann 19. desember er það Skyrjarmur, sem líklega er þó betur þekktur sem Skyrgámur, og þar með eru fimm dagar til jóla.
Á morgun er Bjúgnakrækir væntanlegur til byggða. Þá eru eftir Gluggagægir, Gáttaþefur, Ketkrókur og loks Kertasníkir, sem kemur á aðfangadagskvöld ef veður og færð og mamma hans leyfa.
Stóra spurningin er hins vegar þessi, en ekki verður reynt að svara henni hér: Hvernig geta jólasveinarnir komið til byggða á sama tíma á Ströndum og í Reykhólasveit og Hveragerði og Reykjavík og jafnvel austur á Hornafirði, eins og dæmi eru um?
> Jóladagatalið og myndböndin á Strandavefnum.
> Skyrjarmur eða Skyrgámur á vef Skessuhorns.