Tenglar

27. október 2012 |

Finnur á Skerðingsstöðum jarðsunginn

Finnur á Skerðingsstöðum var mikill hestamaður og átti jafnan góða hesta. Hér er hann á Glettu sinni sem var fangreist og falleg.
Finnur á Skerðingsstöðum var mikill hestamaður og átti jafnan góða hesta. Hér er hann á Glettu sinni sem var fangreist og falleg.

Finnur Kristjánsson bóndi á Skerðingsstöðum í Reykhólasveit, sem andaðist 15. október, var jarðsunginn í Reykhólakirkju í dag og jarðsettur á Reykhólum. Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands jarðsöng, en Finnur heitinn var föðurbróðir hennar. Finnur fæddist á Skerðingsstöðum 11. apríl 1923 og átti því hálfu ári fátt í nírætt þegar hann lést. Hann var yngstur fjórtán barna hjónanna Agnesar Jónsdóttur og Kristjáns Jónssonar sem bjuggu á Skerðingsstöðum.

 

Finnur ólst upp á Skerðingsstöðum við hefðbundin sveitastörf. Rúmlega tvítugur fór hann í Bændaskólann á Hvanneyri þar sem hann var tvo vetur og síðan var hann einn vetur á Íþróttaskólanum í Haukadal. Eftir það fór hann síðan til Siglufjarðar og var þar lögreglumaður í nokkur ár. Inni á milli vann hann ýmis störf, meðal annars átti hann og rak vörubíla ásamt mági sínum.

 

Árið 1955 tók Finnur við búi á Skerðingsstöðum ásamt Halldóri bróður sínum. Það ár kom að Skerðingsstöðum sem ráðskona ung stúlka, Guðný Sæbjörg Jónsdóttir frá Sölvabakka í Engihlíðarhreppi í Austur-Húnavatnssýslu, Dæda eins og hún var kölluð. Sumarið 1956 giftust þau og skírðu sitt fyrsta barn. Sæbjörg andaðist 12. júlí í sumar og lifði Finnur konu sína því einungis þrjá mánuði.

 

Dæda átti fyrir einn son sem Finnur gekk í föðurstað, Jón Árna Sigurðsson, f. 1954. Saman eignuðust þau Finnur og Sæbjörg fjögur börn, þau Kristján, f. 1956, Finn Inga, f. 1958, d. 2005, Karlottu Jónu, f. 1959, og Agnesi, f. 1965. Afkomendur Dædu og Finns eru komnir á þriðja tuginn.

 

Sæbjörg og Finnur bjuggu öll sín búskaparár á Skerðingsstöðum utan eitt ár þegar fé var skorið niður og bjuggu þau þá suður í Mosfellssveit. Heilsu sinnar vegna dvaldist Finnur á dvalarheimilinu Barmahlíð á Reykhólum síðustu árin.

 

21.07.2012  Sæbjörg á Skerðingsstöðum

    

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31