Tenglar

27. desember 2011 |

Fjárhagsáætlunin fyrir 2012: Litlar breytingar milli ára

Í fjárhagsáætlun Reykhólahrepps og stofnana hans fyrir árið 2012, sem var samþykkt við síðari umræðu 15. desember, eru engar verulegar breytingar á heildarniðurstöðum frá endurskoðaðri fjárhagsáætlun fyrir þetta ár. Gert er ráð fyrir óbreyttu útsvarshlutfalli svo og óbreyttri álagningu fasteignagjalda en sorpgjöld hækka um 10%. Laun og launatengd gjöld hækka mikið milli ára en framlag úr Jöfnunarsjóði hækkar um rúm 15%. Helstu framkvæmdir á komandi ári verða á sorpsvæðum hreppsins og haldið verður áfram viðhaldsvinnu við húsnæði grunnskóla og leikskóla.

 

Skatttekjur eru áætlaðar 157,6 milljónir króna. Þar af er gert ráð fyrir 72 milljóna króna framlagi úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Í endurskoðaðri fjárhagsáætlun fyrir árið 2011 eru skatttekjur áætlaðar 145,3 milljónir, þar af 62,5 milljónir úr Jöfnunarsjóði. Aðrar tekjur eru áætlaðar 160 milljónir (158,7 í endurskoðaðri fjárhagsáætlun fyrir árið 2011) og tekjur alls því 317,6 milljónir króna (304,1).

 

Laun og launatengd gjöld eru áætluð 204,4 milljónir (184,8) og annar rekstrarkostnaður 103,5 milljónir (100,2) og gjöld fyrir afskriftir og fjármagnsliði þannig alls 307,9 milljónir (285). Fyrir afskriftir og fjármagnsliði er því gert ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu á rekstrarreikningi að fjárhæð 9,7 milljónir króna (19,1).

 

Að teknu tilliti til áætlaðra afskrifta og fjármagnsgjalda upp á 10,1 milljónir (9,1) er áætluð niðurstaða rekstrarreiknings sveitarsjóðs og stofnana hans samkvæmt fjárhagsáætlun 2012 neikvæð um 6,2 milljónir króna (jákvæð um 4,2 milljónir í endurskoðaðri fjárhagsáætlun fyrir 2011).

 

Fræðslu- og uppeldismálin vega langþyngst í rekstri Reykhólahrepps eins og hjá öðrum sveitarfélögum. Undir þessum lið er í fjárhagsáætluninni gert ráð fyrir útgjöldum umfram tekjur að fjárhæð 110,8 milljónir. Þar af er gert ráð fyrir kaupum á vöru og þjónustu fyrir 50 milljónir króna. Heildarkostnaður við þennan lið er áætlaður 124 milljónir en á móti er gert ráð fyrir liðlega 13 milljón króna tekjum.

 

Af stofnunum Reykhólahrepps er rekstur Barmahlíðar langsamlega umsvifamestur en þar er gert ráð fyrir rekstrarafgangi. Rekstrarkostnaður er áætlaður tæplega 108 milljónir og rekstrarafgangur 2,7 milljónir. „Stofnanir“ í B-hluta reikninga Reykhólahrepps eru fráveita, vatnsveita, hafnarsjóður, félagslegar íbúðir og Dvalarheimilið Barmahlíð.

 

Gert er ráð fyrir að eigið fé sveitarsjóðs Reykhólahrepps og stofnana hans í árslok 2012 verði 292,8 milljónir króna (299 milljónir í árslok 2011 samkvæmt endurskoðaðri fjárhagsáætlun), handbært fé í árslok 2012 verði 48,7 milljónir (54,7) og eiginfjárhlutfall 65% (66%). Ekki er gert ráð fyrir töku nýrra langtímalána á árinu 2012.

 

Fjárhagsáætlunin var til fyrri umræðu í sveitarstjórn 8. desember og til síðari umræðu 15. desember. Ekki er vitað til þess, a.m.k. á síðari tímum, að fjárhagsáætlun Reykhólahrepps hafi áður verið afgreidd fyrir áramót. Fjárhagsáætlunina í heild má finna undir Stjórnsýsla / Ársreikningar og áætlanir í valmyndinni hér vinstra megin og líka fyrst um sinn í reitnum Tilkynningar neðst til hægri.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31