Fjárhagur Reykhólahrepps batnar með hverju ári
Við fyrri umræðu í sveitarstjórn Reykhólahrepps í kvöld var samþykkt samhljóða að vísa ársreikningum Reykhólahrepps og stofnana hans fyrir árið 2013 til seinni umræðu á næsta fundi sveitarstjórnar (sjá reikningana hér). Í reikningunum kemur fram, að rekstrarafkoma Reykhólahrepps á síðasta ári var jákvæð um tæplega 20 milljónir króna en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir 15 milljónum í afgang. Eigið fé Reykhólahrepps er komið í 300 milljónir króna. Skuldaviðmið sveitarfélagsins er nú 38% en var árinu áður 46%. Undanfarin ár hefur hagur Reykhólahrepps batnað jafnt og þétt eins og sjá má í reikningum sveitarfélagsins.
Til að fá endanlegt samþykki sveitarstjórnar varðandi reikningana þarf staðfestingu við tvær umræður. Seinni umræða og endanleg staðfesting reikninganna fer fram á næsta fundi sveitarstjórnar.