Tenglar

27. desember 2008 |

Fjölbreyttir vaxtarsprotar atvinnulífs í Reykhólahreppi

Hrefna kynnir Heilsurjóðrið sitt.
Hrefna kynnir Heilsurjóðrið sitt.
1 af 4

Nokkru fyrir jólin lauk á Reykhólum námskeiðinu Vaxtarsprotar, sem staðið hafði í þrjá mánuði undir leiðsögn Viktoríu Ránar Ólafsdóttur, verkefnisstjóra hjá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða (Atvest). Vaxtarsprotar eru stuðningsverkefni sem hefur það markmið að hvetja til fjölbreytni í atvinnusköpun í sveitum og styðja við hana. Þátttakendur komu með hugmyndir sínar og gerðu viðskiptaáætlanir um þær. Viðfangsefnin voru mjög fjölbreytt, meðal annars á sviði matvælaiðnaðar, heilsueflingar, verkfærasmíði og ferðaþjónustu, eins og hér verður lítillega rakið nánar (þátttakendur og hugmyndir þeirra):

  • Bergsveinn og Signý Margrét á Gróustöðum: Arnarsetur Íslands, frekari útfærsla.
  • Ebba á Bakka og Jóna Valgerður í Mýrartungu: Handverk og matarmarkaður í Vogalandi.
  • Hrefna Hugósdóttir á Reykhólum: Heilsurjóður fyrir konur.
  • Lóa á Miðjanesi: Skjól í skógi, uppbygging tjaldsvæðis fyrir ferðafólk.
  • Málfríður á Hríshóli: Hagaganga og eins konar hvíldarheimili fyrir hross.
  • Sigfríður á Stað: Reykskemman á Stað, framleiðsla á kofareyktum matvörum.
  • Steinar og Sirrý í Álftalandi: Stækkun á gistiheimilinu og veitingarekstur.
  • Svanhildur á Mávatúni og Sólrún Sverrisdóttir á Reykhólum: Þaraböð á Reykhólum.
  • Sveinn á Svarfhóli: Hólsverk, hönnun og framleiðsla á heyskera fyrir rúllur.

„Verkefni eins og Vaxtarsprotar eru mikilvæg til atvinnusköpunar á svæðinu en einnig fyrir Atvest, þar sem námskeiðin veita verkefnastjórum félagsins tækifæri til að kynnast fólki með nýjar hugmyndir og aðstoða það á áhrifaríkan hátt", segir Viktoría Rán Ólafsdóttir verkefnisstjóri. „Einnig er afar mikilvægt að oft myndast svokallað hópefli, sem veitir fólki frekari innblástur og kraft til að keyra verkefni sín áfram og þannig verða verkefnin frekar að veruleika. Slíkt hópefli getur einnig skilað sér í löngu og góðu samstarfi áður ótengdra aðila og jafnvel fyrirtækja innan svæðis, þar sem samvinna er lykilatriði í uppbyggingu í atvinnumálum jaðarbyggða. Samvinna í samkeppni varð kjörorð Reykhólahópsins."

 

Myndirnar tók Óskar Steingrímsson á síðasta degi námskeiðsins í húsnæði Hlunnindasýningarinnar á Reykhólum, en í lokin var sameiginlegur málsverður á sama stað. Miklu fleiri myndir sem hann tók við sama tækifæri er að finna í valmyndinni hér vinstra megin: Ljósmyndir > Myndasyrpur > Vaxtarsprotar 2008.

 

Framundan er vegleg uppskeruhátíð á vegum Vaxtarsprotaverkefnisins, sem haldin verður í lok janúar. Þar verður hópurinn formlega útskrifaður og veittar viðurkenningar fyrir verkefnin. Í kjölfarið mun Atvinnuþróunarfélagið hvetja þátttakendur áfram til dáða og aðstoða þá við frekari úrvinnslu verkefna.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30