Tenglar

31. janúar 2013 | vefstjori@reykholar.is

Fjöldi gamalla Reykhólamynda - hver þekkir fólkið?

Fólk í leikbúningum við Braggann.
Fólk í leikbúningum við Braggann.
1 af 6

Reykhólavefnum hafa borist ómetanlegar Reykhólamyndir frá fyrri tíð, teknar á árabilinu frá því laust fyrir 1950 og fram yfir 1960. Myndirnar sendi Örn Elíasson, læknir í Baltimore í Maryland-ríki í Bandaríkjunum. Þeim fylgdi örstuttur texti: „Ég heiti Örn Elíasson, fæddur og uppalinn á Reykhólum til 11 ára aldurs. Foreldrar mínir voru Sigurður Elíasson og Anna Ólöf Elíasson (fædd Guðnason). Ég sendi hér með nokkrar myndir sem ég átti í gömlu albúmi og svo nokkrar sem ég fann ofan í skúffu að foreldrum mínum látnum. Ykkur er velkomið að nota þetta ef þið viljið.“

 

Hvort við viljum!

 

Um er að ræða 26 myndir af börnum og fullorðnum, húsum og staðháttum á Reykhólum og þar í grennd. A.m.k. eina myndanna tók Þorgeir Samúelsson á Höllustöðum, æskuvinur Arnar, og sjálfur er Þorgeir á annarri. Einnig getur að líta bræðurna Ebenezer og Helga Jenssyni, sem líka voru æskuvinir Arnar. Á einni myndanna er stór hópur af fólki í leikbúningum fyrir utan Braggann á Tilraunastöðinni, en í honum voru haldnar leiksýningar í árdaga. Þarna er líka mynd frá heimsókn forseta Íslands og eiginkonu hans á Reykhólum.

 

Hér með fréttinni eru settar inn fáeinar af þessum myndum (auk aldamótamyndar af Erni og fjölskyldu hans). Þær er hins vegar allar að finna undir Ljósmyndir, myndasöfn > Gamlar myndir í valmyndinni hér vinstra megin eða með því að smella hér.

 

Ef einhverjir geta veitt upplýsingar um leiklistarfólkið við Braggann á Reykhólum fyrir meira en sex áratugum og látið í té fróðleik um leiksýningarnar þar, þá væri slíkt afar vel þegið. Skrifa mætti í athugasemdadálkinn á undirsíðunni Gamlar myndir sem hér var vísað á (heppilegra þar en hér þó að vissulega mætti gera það á báðum stöðum) eða senda umsjónarmanni tölvupóst (vefstjori@reykholar.is) ellegar þá hringja í síma 892 2240.

 

Umsjónarmaður vefjarins bað Örn að senda æviágrip sitt og minningabrot frá Reykhólum til fróðleiks. Það má lesa á undirsíðunni sem um var rætt og jafnframt eru þar myndir af honum sjálfum og fjölskyldunni vestra.

 

Örn Elíasson biður fyrir kærar kveðjur á fornar heimaslóðir og þá sérstaklega til leikfélaganna á æskudögum.

 

Athugasemdir

Þrymur Sveinsson, fimmtudagur 31 janar kl: 19:20

Það er alveg meiriháttar að brottfluttir, gestkomandi, sveitungar deili gömlum myndum úr byggðarlaginu. Slíkt er ómetanlegur fjársjóður fyrir sögu þess og gefur innsýn í mannlífið! Ég árétta við fólk að skrifa nöfn fólksins aftan á myndirnar eða auðkenni þær á annan hátt.

Björk Stefánsdóttir, fimmtudagur 31 janar kl: 23:14

æðislegt að sjá þessar gömlu myndir, mér sýnist þetta vera Lilja á Grund sem er á einni myndinni, leiksýningunni

Svanur Sveinsson, læknir Reykhólum 1963-1966, fimmtudagur 05 mars kl: 11:31

Sr.Thórarinn Thór
lenst til haegri.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Oktber 2024 »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31